06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (4240)

51. mál, hafnargerð í Ólafsfirði

Frsm. (Pétur Ottesen):

Fyrsti flm., hv. 1. þm. Eyf., gerði grein fyrir því við 1. umr., hver orsök lægi til þess, að þessi till. var borin fram. Það hafði atvikazt svo, að á nýafstöðnum sýslufundi í Eyjafirði synjaði meiri hl. sýslun. um ábyrgð fyrir því láni til hafnarbóta í Ólafsfirði, sem hér er gert ráð fyrir, en það veldur því, að ábyrgð ríkissjóðs fyrir þessu láni fæst ekki, þar sem þá er ekki hægt að uppfylla skilyrðið fyrir því. Nú stendur svo á, eins og hv. 1. þm. Eyf. skýrði frá, að búið er að festa kaup á efni, sem nemur, komið til Ólafsfjarðar, 200 þús. kr. að verðmæti, og undirbúningur að framkvæmd þessara aðgerða á sumri komanda hafinn.

Þessi aðgerð er að því leyti aðkallandi, að af völdum ár, sem rennur út í höfnina, berst mikið af sandi og möl upp að bryggju þeirri, sem þar er, og það svo, að þessi bryggja, sem notuð er fyrir bátaútgerðina í Ólafsfirði, verður af þeim sökum ónothæf nema fyrir minnstu báta. Þessi aðgerð er miðuð við það, að tekið verði fyrir þennan aðburð að bryggjunni, og að því leyti er framkvæmdin mjög aðkallandi. Nú leiðir af sjálfu sér, að hætta verður við efniskaupin til verksins, ef ekki er gripið til annarra ráða til að fá úr þessu bætt. Í þessari þáltill., er farið fram á, að ríkið hlaupi undir bagga til að leysa út þetta efni. Fjvn. er hv. flm. sammála um það, að þær ástæður, sem fyrir hendi eru, séu þess eðlis, að rétt sé, eins og ástatt er, að hlaupa undir bagga, og hefur fallizt á að mæla með till., bæði að því er upphæðina snertir og þá aðferð, sem lagt er til, að höfð verði. Hins vegar leggur n. mikla áherzlu á, að undinn sé bráður bugur að því heima í héraði, að fullnægt verði skilyrðum 2. gr. hafnarl. fyrir Ólafsfjörð, svo að ríkissjóður fái framlagið til efniskaupanna endurgreitt, enda er frekari framkvæmd verksins sýnilega háð því, að framkvæmdin sé reist á ákvæðum hafnarl.

Lífsafkoma þeirra, sem þarna búa, er undir því komin, að þetta mál verði leyst, og málið verður að leysa. Það er ekki hægt að láta við það sitja, að mál, sem framtíð þessa staðar byggist á, sé kyrkt í fæðingunni. Fáist það ekki leyst með því, að Eyjafjarðarsýsla gangi í ábyrgðina, eins og ráð er fyrir gert í hafnarl. Ólafsfjarðar, þá er ekki um annað að gera en þetta kauptún leiti eftir að fá bæjarréttindi og geti þannig haldið þessum framkvæmdum áfram, sem hér er stofnað til, þannig að ákvæðum hafnarl., sem þá mundi breytt með hliðsjón af því, sé fullnægt.

Það er ekki neitt í hættu fyrir ríkissjóð að leggja þetta fé fram, því að í fyrsta lagi hefur hann alveg í hendi sér þessa tvo fimmtu hluta af fjárframlaginu og auk þess það að fá fulla endurgreiðslu á láninu við framhaldandi framkvæmd verksins. Að því leyti er ekki í neina hættu stefnt, en hins vegar nauðsynlegt, að greitt verði úr þessum erfiðleikum Ólafsfjarðar. Með þessu er ekki heldur skapað fordæmi. Hér er einungis um bráðabirgðafrávikningu frá gildandi reglu að ræða, sem ekki á sér langan aldur.

Hér hefur verið borin fram brtt. frá hv. þm. Barð., þar sem hann leggur til, að í staðinn fyrir, að ríkissjóður leggi fram þetta fé, veiti hann ríkisábyrgð fyrir allt að 120 þús. kr. Þetta er þó ekki fullnægjandi til úrlausnar. Hv. þm. hefur ekki talað fyrir þessari brtt., en ef það hefur vakað fyrir honum, að einhverju væri í hættu stefnt með þessu framlagi, þykist ég með því, sem ég hef nú sagt, hafa sýnt fram á, að svo er ekki. Sé ég því ekki ástæðu til frá því sjónarmiði séð að hverfa frá þeirri till., sem hér liggur fyrir og fjvn. mælir með, enda er þessi brtt. sýnilega á misskilningi byggð. Ég álít, að ríkissjóði sé það jafntryggt að leggja fram það fé, sem hér um ræðir, og að fara að taka ábyrgð á þeirri upphæð, sem til er tekin í brtt. hv. þm. Barð.

Ég hef svo ekki miklu meira um þetta mál að segja, en vil þó taka fram, að Ólafsfjörður er sérstaklega vel settur að því leyti, að hann liggur bezt við af öllum útgerðarstöðvum á þessu svæði að því leyti, hve örstutt er þar á fiskimiðin, en um miklu lengri sjósókn að ræða frá öðrum stöðum. En eins og hann er vel settur, hvað fiskveiðaaðstöðu snertir að þessu leyti, er hann illa settur með samgöngur á landi. Íbúar Ólafsfjarðar eiga þess ekki kost að eiga landsamgöngur við það hérað, sem þeir tilheyra, nema þá yfir hásumarið. Eina samgönguleiðin er að fara yfir Lágheiði yfir í Fljótin í Skagafjarðarsýslu. Er nú verið að vinna að umbótum á þessari leið. Í Ólafsfirði býr dugnaðarfólk, sem hefur sýnt mikla atorku í störfum sínum, bæði í útgerðinni og eins því að hagnýta þá mjög svo takmörkuðu landkosti, sem þar er um að ræða. Ólafsfirðingar hafa beitt sér fyrir margháttuðum framförum, t. d. í rafmagnsmálum og eins í því að hagnýta sér jarðhitann, sem er þó í nokkurri fjarlægð frá kauptúninu. Þeir hafa og fest kaup á því landi, sem kauptúnið stendur á, og meiru, sem hægt er að græða út, svo að íbúar geti átt ítök í landbúnaðinum, sem er óneitanlega mikilsvert atriði. Það, sem hér skortir á, eru umbætur á hafnar- og lendingarskilyrðum. Það verkefni munu Ólafsfirðingar einbeita sér við á næstu árum, enda þörfin til úrbóta á því sviði brýn og aðkallandi. Ég vildi láta það koma fram, að hér er verið að gera ráðstafanir til að hjálpa þeim, sem hafa sýnt í verkinu, að þeir verðskulda sannarlega, að þeim sé rétt hjálparhönd, og þá ekki sízt, er eins stendur á og nú. Ég legg því til fyrir hönd fjvn., að till. verði samþ. í því formi, sem hún er í nú.