10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (4251)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég flyt hér ásamt nokkrum öðrum þm. till. til þál. um heimild handa ríkisstj. til að veita fé til lagningar Suðurlandsbrautar um Krýsuvík. — Ég þarf í rauninni ekki að fara mörgum orðum um þessa till., þar sem aðalatriðin henni viðvíkjandi eru fram tekin í grg. Ég vil aðeins benda á, að þetta er mál, sem ekki þolir neina bið, er aðkallandi fyrir upp undir helming landsmanna. Það þarf því að taka það fastari tökum en gert hefur verið undanfarið. Annars vegar er fjölmennasti kaupstaður landsins, sem þarf að fá nauðsynlegar neyzluvörur, og hins vegar eru framleiðendur á stærsta landbúnaðarsvæði landsins, sem þurfa að tryggja daglega sölu afurða sinna.

Um tvær leiðir hefur verið að ræða, Hellisheiði og Þingvallaleiðina. En báðir þessir vegir liggja hátt og eru þannig lagðir, að þeir gerast torveldir, ef nokkuð snjóar, og eru oft ófærir með öllu. Það gefur að skilja, hve miklum örðugleikum þetta veldur á alla vegu, og sýnist næstum einkennilegt, að þessi leið skuli ekki hafa verið betur tryggð, eins og lögð hefur verið mikil stund á samgöngur í landinu undanfarið. Því er ekki að leyna, að þessu virðist mikið valda ágreiningur og sundrung þeirra, sem hlut eiga að máli. Margar raddir hafa verið uppi um lausn málsins, og þess vegna hefur lent í því einu, að allt hefur farið í tómar rannsóknir, sem hafa verið tiltölulega gagnslitlar. Hins vegar eyðist daglega stórfé í þetta kák að undirbúningi, og er þegar búið að verja í það 240 þús. kr., eins og tekið er fram í grg. Þar að auki fer nú daglega forgörðum fé, er skiptir tugum þúsunda, í framleiðsluvörum og flutningatækjum. Mjólkurbílarnir hafa verið 12–18 stundir yfir fjallið undanfarið, ef þeir hafa á annað borð komizt, og aðeins fáir hafa komizt óskemmdir.

Aftur á móti er nú fullreynt, að vegur sá um Krýsuvík, sem byrjað er á, kemur til með að tryggja samgöngur mun betur að vetrarlagi og leysa þennan vanda að mjög miklu leyti. Hitt er auðvitað, að hann gæti orðið ófær í miklum snjóum, það geta allir vegir, þótt í byggðum séu. Þriðjungur þessarar leiðar hefur nú verið undir eftirliti í þrjú ár, og búið er að leggja hæsta hlutann og hættulegasta í snjóum. Það hefur sýnt sig, að þessi kafli hefur verið hér um bil alveg snjólaus, þótt báðar flutningaleiðirnar austur yfir fjall væru ófærar. Síðast er það vitað núna undanfarið, er vegir hafa verið illfærir austur, að þá hefur þessi vegur verið snjólaus og greiðfær eins og vegir í byggðum eða göturnar í Reykjavík. Síðast er vegir tepptust austur, fórum við nokkrir saman upp í Vatnsskarð, en það er hættulegasti kaflinn á Krýsuvíkurleiðinni. Þar mátti þá heita alveg snjólaust, enginn skafl, sem hver fólksbíll hefði ekki komizt hindrunarlaust gegnum. Vegurinn mátti því heita eins og hér á götunum, og er þetta þó versti kaflinn.

Ef snjóþungir vetur kæmu, mundi það kosta þjóðfélagið milljónir kr. að halda þeim leiðum opnum, sem nú eru farnar, auk afar mikilla óþæginda fyrir framleiðendur og neytendur. Mér er það raunar alveg óskiljanlegt, hvílíkt óskaplegt skeytingarleysi það hefur verið að tryggja ekki þessa langþýðingarmestu leið landsins. Menn hafa reynt að moka fjallvegina með skóflum og snjóýtur hafa verið reyndar, síðan herinn kom, svo að ekki hafa þær verið útvegaðar af vegamálastjórninni. Ekki hafa verið gerðar tilraunir með fleiri tæki nema snjóbíla, enda eru þeir engin framtíðarlausn fyrir flutningaleið, sem 100 smálestir eru fluttar um daglega, þar sem öll héruð í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu þurfa að nota þessa leið til allra aðdrátta og flutninga framleiðsluvara, því að það eru engar hafnir í þessum sýslum, eins og allar vita. Ég held því, að öllum hljóti að vera ljós nauðsyn þessa máls, enda er hér ekki um neina gífurlega upphæð að ræða. Vegamálastjóri hefur áætlað hana 5 millj. kr. og viðurkennt, að það væri ónákvæm áætlun. Og þegar leitað hefur verið eftir að framkvæma vegarkafla í ákvæðisvinnu á þessari leið, þá hefur ekki þótt rétt að taka því, þótt miðað væri við þessa áætlun. Þetta sýnir, að vegamálastjóra þykir, að áætlun þessi muni fremur of há, því að öðrum kosti hefði hann ekki neitað um ákvæðisvinnu á vegarköflum eftir þessari áætlun eða miðað við hana.

Ég gæti ímyndað mér, að drægist þessi framkvæmd enn í tvö ár og þau væru snjóþung, þá færu ekki minna en 2 millj. kr. í að halda núverandi leiðum opnum, í mannafla, í tækjum og eyðilögðum flutningatækjum. Það er því allsendis óverjandi að draga lengur að hefjast handa í þessu máli.

Það hefur verið um það rætt og flestir því samþykkir, að sem fæst mál væru flutt á þessu þingi fyrir utan stjskrbreyt. En hér hafa samt komið fram mál, sem ég tel þessu máli miklu ónauðsynlegri, og sannast það nú áþreifanlega daglega. Vænti ég, að það fái fulla afgreiðslu á þessu þingi og að hún verði góð. Að svo mæltu óska ég eftir, að till. verði vísað til síðari umr. og fjvn.