11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4258)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Ég ætla, að það leiki ekki á tveim tungum um nauðsyn þessa máls, og það gleður mig að heyra, að málið á fylgi að fagna hér á hv. Alþ.

Þannig er ástatt um þetta mál, að það er mikið nauðsynjamál fyrir nær helming þjóðarinnar. Það er þess vegna ekki ófyrirsynju, þó að bót verði á þessu ráðin, þeim samgönguerfiðleikum, sem verið hafa milli Suðurlandsundirlendisins og bæjanna vestan Hellisheiðar. Það sjónarmið þarf ekki að ræða, það er svo auðséð. Hitt er leiðinlegra, að menn skuli ekki enn vera búnir að koma auga á það, að eftir þeim leiðum, sem vegir liggja nú, verður þetta samgöngumál ekki leyst. Vegurinn austur Hellisheiði, hvar sem hann liggur, verður aldrei fær að vetrinum, ef snjóalög eru að nokkru ráði. Um það þarf ekki að deila, það þekkja þeir, sem hafa ferðazt að vetrarlagi um þennan fjallveg, þegar nokkur snjóalög hafa verið. Hið sama má segja, undir venjulegum kringumstæðum, um Þingvallaleiðina. Ef menn standa í þeirri meiningu nú, að unnt væri að fá betra vegarstæði á þeirri leið með því að leggja veginn öðruvísi, þá er það hinn mesti misskilningur. Þessi vegur er fyrir stuttu lagður, og vegarstæðið var valið hyggilega, að ég ætla, og ekki hægt að fá heppilegra vegarstæði en það er. Nú sýnir það sig, þó að ekki sé ógnmikill snjór, að þessi leið er að langmestu leyti snjótröð, nú síðan vegurinn var ruddur mikinn hluta leiðarinnar. Þegar kemur austur undir Keldur, eru að kalla djúpar snjótraðir líka. Ég veit ekki, hvar menn ætla að fara með veginn á þessari leið, ef þeir ætla að fá einhvers staðar vegarstæði, þar sem ekki leggst snjór og svo mikill, að vegurinn verði ófær. Þetta er því sameiginlegt fyrir báðar þessar leiðir. Og þegar minnzt er á rannsókn í þessu sambandi, hvers vegna er þá ekki hægt að rannsaka þetta núna? Ég viðurkenni fullkomlega, að það er fjarri því, að það standi alveg á sama um þennan veg. Hann getur lengi orðið fær að austan, ef Hellisheiði er ófær, en hann leysir ekki það verkefni, sem leysa þarf, að fært sé austur að vetrarlagi og vegurinn sé svo góður, að umferð um hann sé nokkurn veginn eins örugg og um vegina á sléttlendinu. Slík lausn fæst ekki, nema hann liggi sem næst sjávarfleti og við sjó. Þetta vita allir, sem til þekkja, og hver einasti reyndur og roskinn maður, þótt einhverjir hér geri sér aðrar hugmyndir um þetta.

Þegar talað er um umbætur á Hellisheiðarveginum, þá er miðað við, að það er langstytzta leiðin og verður farin milli þessara staða, þegar hún er fær. Þess vegna verður þeim vegi haldið við, og hann verður endurbættur, og við vonum, að hann verði fær mestan hluta ársins. En þannig er ástatt um búnaðarhætti okkar, að samgöngur milli Suðurlandsundirlendisins og byggðanna vestan Hellisheiðar mega aldrei niður falla, ekki einn dag. Sé ófært meir en einn dag, stöðvast t. d. mjólkurflutningar, og það veldur stórskaða og óþægindum, ef flutningar stöðvast nokkuð að ráði. Þegar ég nefni skaða, á ég ekki eingöngu við fjármunalegan skaða, heldur þann skaða, sem aldrei verður bættur, heilsutjónið, ekki á tugum manna, heldur á hundruðum eða jafnvel þúsundum. Það er sú dýra eign, sem þjóðin á, og það ber að koma í veg fyrir, að slíkt tjón geti átt sér stað.

Um Krýsuvíkurveginn er það að segja, að hæsti hluti hans mun verða um 170 m. fyrir ofan sjávarmál. Munurinn á þessari leið og hinum, Mosfellsheiði og Hellisheiði, er því stórkostlegur. Þar að auki liggja þeir vegir langt frá sjó, og snjóar því meira þar. Nú er vegurinn nærri kominn til Krýsuvíkur og kemur þá að notum. Að austanverðu er það um veginn að segja, að hann er kominn út á móts við Vindheima í Ölfusi.

Ekki dettur mér í hug að ætla, að hv. Alþ. fremji þá vanrækslu og ranglæti gagnvart heilli sveit austanfjalls, Selvognum, að bændur þar fái ekki veg til sín. Það er bert, að afkoma sveitarfélagsins er undir því komin, hvort þessi vegur verður lagður. Hér er því um það að ræða, hvort byggð helzt í þessari sveit eða ekki. Þar hafa menn lifað á sauðfjárrækt nær eingöngu, en nú er mæðiveikin komin þangað, og þegar sauðfjárræktin bregzt, hafa þeir ekkert til að lifa af. Þeir mundu geta stundað garðrækt með góðum árangri, en sá ljóður er á því, að þeir geta ekki komið framleiðslunni frá sér nema með svo dýru móti, því að þangað liggur engin akbraut og enginn vegur. Og ef þeir ætluðu að reiða afurðir sínar á mörgum hestum, mundi það verða dýrt, því að hestahald er mjög dýrt. Þeir yrðu þá að leigja sér hesta og ættu þá á hættu, að garðmaturinn gereyðilegðist. Það liggur því við borð, að bændurnir flosni upp og býlin leggist í eyði. Mér dettur því ekki í hug, að hv. Alþ. fremji þá vanrækslu að sjá ekki um, að vegur verði lagður út í Selvog, og þá er mestur hluti leiðarinnar kominn, því að það er ekki nema stutt leið milli Selvogs og Krýsuvíkur, sem þá væri eftir að leggja veg yfir. Ég geri sem sé ráð fyrir því, að vegurinn verði fyrst fullgerður til Krýsuvíkur og Selvogs, og þá er ekki nema stutt eftir, — ég ætla, að það muni vera svona 20 til 25 km. Ég ábyrgist þó ekki þessa tölu, því að ég gat ekki náð í hana, áður en málið kom hér fyrir, en það er sjálfsagt hægt að fá upplýsingar um þetta og koma þeim til fjvn. Það yrði þó ekkert áhorfsmál að fullgera það, sem eftir væri, þegar svo langt er komið, því að ekki er vafi á, að með því væru erfið viðfangsefni leyst að mjög miklu leyti. Ég vil ætla, að það verði fært þessa leið, þegar fært er á undirlendinu vestan og austan heiðarinnar.

Ég vil því vona, að fjvn. geri sitt til að greiða nú fyrir þessu máli og á þessu Alþ. verði gerðar þær ráðstafanir, að það geti fljótt orðið leyst til hagsmuna fyrir íbúa héraðanna austan og vestan heiðanna.