11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (4259)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Emil Jónsson:

Herra forseti. — Ég get verið mjög stuttorður, því að ýmsir, meðflm. mínir og aðrir, hafa orðið til þess að hreyfa málinu, svo það er eiginlega ekki nema litlu við að bæta, ef þá nokkru. En það er þó eitt atriði, sem ég vil sérstaklega leyfa mér að vekja máls á, sem er aðalatriði þessarar till. frá mínu sjónarmiði: Alþ. hefur þegar tekið stefnu í þessu máli. Alþ. hefur ákveðið, að þessi vegur verði lagður, og það hefur þegar veitt fé til þess að fullgera á honum langan kafla. Þannig hefur Alþ. markað stefnuna í þessu máli. Það eitt, sem eftir er að ákveða, er það, sem þessi till. fjallar um, sem sé, hvern gang skuli hafa á málinu.

Það var byrjað að ræða þetta og leggja veginn árið 1936 eða fyrir um það bil átta árum. Samtals hefur nú verið lagður vegur, sem ég ætla, að ekki sé langt frá að vera 25 til 30 km. langur. Meðalafköst á ári, ef öll árin eru talin, eru því ekki nema 3 til 4 km., — segjum 4 km. Með því móti tæki um 20 ár að fullgera þennan veg. Spurningin er þá, hvort ekki borgi sig betur og heppilegra sé fyrir ríkið og þjóðina í heild að veita í þennan veg meira fé og leggja lengri kafla á styttri tíma.

Það hagar nú svo til, a. m. k. um vesturkafla leiðarinnar, að tæplega er hægt að hafa hans not, fyrr en hann hefur náð til Krýsuvíkur, og ekki hægt að hafa af veginum full not, fyrr en hann er lagður allur. Mér finnst þess vegna, að menn þurfi að gera upp við sig, hvort þeir vilji láta þessi hundruð þúsunda liggja þar óarðbær, svo að áratugum skipti, án þess að þessi kafli, sem lagður hefur verið, verði nokkuð notaður og meðan helmingur landsmanna bíður eftir að fá að nota þennan veg, — því að ég ætla það nokkurn veginn upplýst, að þessi leið verður aðalvetrarflutningaleiðin milli Suðurlandsundirlendisins, þar sem búa 10 til 15 þúsundir manna, og höfuðstaðarins og nágrennis hans, þar sem búa um 40 til 50 þúsundir manna. Mér virðist, að um það geti ekki orðið nokkur vafi, hvernig á að leysa málið, og þess vegna hef ég gerzt meðflm. að till. þessari, sem gengur út á það, hver gangur skuli á málinu hafður, að það skuli leyst á tveim næstu árum, gert svo stórt átak, að veginum verði lokið á árinu 1945 og komi þá að fullum notum. Þetta kostar vitanlega mikið fé, það skal viðurkennt, en ég álít það samt ódýrara fyrir ríkissjóð og þjóðina í heild, jafnvel þótt lán verði tekið til framkvæmdanna að einhverju eða mestu leyti. Ég álít það ódýrara en láta það fé, sem þegar hefur hér verið lagt fram, liggja ónotað og sérstaklega með tilliti til þeirra miklu útgjalda, sem flutningar yfir heiðina hafa í för með sér að vetrarlagi, því að það dregur úr þeim kostnaði, þegar þessi vegur er fullgerður. Þetta er eiginlega aðalatriðið í málinu og eina atriðið, sem ég ætla að ræða um, því að ég vil halda mig við það, sem ég sagði í upphafi, að því hefur verið slegið föstu, að vegurinn verði lagður. Það er því eingöngu um það að ræða, hvernig framkvæmdum skuli hagað. Ég veit, að það er víða þörf vega á þessu landi, en það er hvergi á landinu, sem eins mikill mannfjöldi bíður vegalagningar og einmitt á þessari leið, sem hér um ræðir. Það eru teygðir vegir út um annes, sem kosta tugi og hundruð þúsunda, en hér bíður helmingur landsmanna eftir, að þessi vegur verði fullgerður, og ég tel tvímælalaust, að hann eigi að ganga fyrir öðrum.

Ég þarf ekki á þessu stigi málsins að hafa um þetta fleiri orð. Ég vona, að það Alþ., sem nú situr, afgr. þetta mál, svo að hægt verði nú í ár að fullgera annan þann helming, sem ógerður er. Ef þetta Alþ. gengur ekki frá málinu, þá verður ekki unninn á þessu ári nema sá kafli, sem gert er ráð fyrir í fjárl.

Ég skal ekki að öðru leyti blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa orðið um flutning málsins. Ég tek vitanlega feginn stuðningi, hvaðan sem hann kemur, eins og allir aðrir, sem áhuga hafa á þessu máli, því að það, sem fyrir mér hefur vakað, er fyrst og fremst að koma málinu áfram og leysa það, en ekki það, hver er að því flm. eða hver hefur af því heiðurinn, því að það er aukaatriði. Aðalatriðið er, að málið komist í framkvæmd.

Það eru nú liðin þrjú ár svo, að ekkert hefur verið í þessu máli gert. Það hefur verið borið við fólksleysi, en ég fullyrði, að sú ástæða er ekki lengur fyrir hendi, þannig að það á ekki að hamla framkvæmdum, jafnvel þótt þær verði í svo stórum stíl sem hér er farið fram á. Þessi ástæða er áreiðanlega ekki lengur til.

Féleysi ætla ég að þurfi ekki að valda neinum erfiðleikum, svo mikið er nú veitt til ýmissa framkvæmda og greitt úr ríkissjóði til hluta, sem áreiðanlega eiga ekki meiri rétt á sér en það, sem hér um ræðir.

Það renna því flestar stoðir undir það, að málið verði afgreitt svo sem hér er gert ráð fyrir og hæstv. Alþ. gangi frá því á þann hátt.