11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (4261)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Emil Jónsson:

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. vildi gera mikið úr því, að með þessari þáltill. væri farið inn á óvenjulegar leiðir, því að fjárl. hefðu verið afgreidd og þar hefði þessum vegi verið ætlaður sá hluti af vegafénu, sem þá hefði verið álitinn hæfilegur, og ætti málið eiginlega að vera afgr. með því. Hér væri svo komið með þáltill. um að leggja fram allmikla fjárfúlgu, sem gæti dregið dilk á eftir sér, hér skapaðist fordæmi, sem gæti orðið afleiðingaríkt. — En ég spyr þennan hv. þm.: Hefur hann aldrei orðið var við þáltill. svipaða og þessa eða kannske um að leggja fram öllu fleiri milljónir, án þess að fjárl. hefðu verið á ferð? Ég minnist þess, að hér hafa verið á ferð þáltill. á hæstv. Alþ., sem gerðu ekki ráð fyrir tveggja millj. kr., heldur, — ja, ég vil ekki segja 20 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði, — en upp undir það, og án þess, að hv. þm. Barð. hafi viljað beita sér á móti þeirri afgreiðslu málsins. Þetta er því aðferð, sem m. a. hann hefur áður innleitt hér á hæstv. Alþ.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það væri æskilegast og eðlilegast á ýmsan hátt, að fjárl. væru sá eini vettvangur, þar sem farið væri með fjárveitingar á Alþ., og að fjárveitingar væru ekki um hönd hafðar nema í sambandi við fjárl. Og ég skal viðurkenna, að það væri æskilegast að vera laus við að samþ. fjárveitingar með þáltill., eins og hér er stefnt að. En þessi aðferð, sem hér er lögð til, hefur verið notuð svo mörgum sinnum áður, að hún er ekkert nýmæli á Alþ., — og m. a. notuð af hv. þm. Barð.

Hv. þm. Barð. taldi, að hér væri ekki um svo aðkallandi mál að ræða, að þessar 500 þús. kr., sem fyrir hendi væru frá árinu í fyrra og í ár, ættu að nægja til framkvæmda á lagningu þessa vegar, þangað til farið væri að ræða fjárl. fyrir 1945. En hér er um svo stórt og umsvifamikið verk að ræða, að ef því á að ljúka í fyrirsjáanlegri framtíð og eins fljótt og við flm. þáltill. gerum ráð fyrir, þá dugir ekki sú fjárveiting, sem á fjárl. er gert ráð fyrir til þessa vegar, heldur verður framlagið að vera svipað og hér er farið fram á í þáltill. Þetta er ástæðan til þess, að við höfum borið fram þessa þáltill. Ég álít, að þörfin sé brýnni á þessum vegi en öðrum vegum, vegna þess að svo margt fólk þarf að nota þennan veg, og að hjá því verði ekki komizt að meta þörfina fyrir veginn með hliðsjón af þeim fólksfjölda, sem þarf að nota hann.

Ég sagði í fyrri ræðu minni, að ákveða ætti með þessari þáltill., hvaða hraði væri hafður á lagningu þessa vegar. Og sú skoðun mín hefur ekki breytzt við ræðu hv. þm. Barð. Og þessi afgreiðsla á þáltill. er alls ekki ný, þó að hún sé kannske ekki æskileg.

Þá sagði hv. þm. Barð., að umsögn vegamálastjóra viðvíkjandi framlagi þessu til Krýsuvíkurvegarins lægi ekki fyrir. En þar til er því að svara, að hér er alls ekki til neins að leita um neina umsögn, hvorki um það, hvort eigi að leggja veginn, né heldur hvar eigi að leggja hann eða hvað hann muni kosta. Það liggur allt fyrir. Hér er eingöngu um það að ræða, hve hratt á að leggja veginn, og um það tekur hæstv. Alþ. ákvörðun án tillits til skoðana vegamálastjóra. Hér er ekki um teknískt atriði að ræða, heldur framkvæmdaratriði um hlut, sem áður er upplýstur að öllu leyti.

Þá sagði hv. þm. Barð. vinsamleg orð um það, að ég væri að gera mig góðan í þessu máli gagnvart þeim verkamönnum, sem búnir væru að spenna kaupið svo hátt, að atvinnuvegirnir þyldu ekki slíkt kaupgjald, og yrði því að senda verkamennina í þessa opinberu vinnu, því að þar þyrfti ekki að tala um afköst manna í sambandi við kaupgjaldið. Sem betur fer held ég, að hv. þm. Barð. sé það ljóst, að kaup þeirra, sem vinna að framleiðslu í Hafnarfirði, er ekki svo hátt enn, að framleiðslan þar hafi verið rekin með halla þess vegna. Kaup verkamanna í Hafnarfirði hefur ekki verið spennt svo hátt enn, að atvinnuvegunum hafi hingað til stafað hætta af. Það er því ekki þannig, að þess vegna þurfi að senda menn í vinnu við lagningu Krýsuvíkurvegarins, og veit þar hv. þm. Barð. betur en hann lætur.

Ég hef verið með þessari vegarlagningu, að vísu með hagsmuni Hafnfirðinga fyrir augum á vissan hátt, til þess að bæjarbúar næðu með þessum vegi sambandi við ræktunarland sitt og á þann hátt væri hægt að skapa mönnum möguleika til atvinnu við ræktun, ef í harðbakka slægi. Hafnarfjörður er algerlega landlaus. En með þessum vegi, þegar hann verður lagður, kemst Hafnarfjörður í samband við nærtækasta ræktunarland, sem bæjarbúar eiga kost á. Og ég skammast mín ekkert fyrir það, þó að ég fylgi þessu máli einnig með tilliti til þessa nauðsynjamáls Hafnarfjarðarkaupstaðar. Aðalatriðið í sambandi við þessa vegarlagningu er sambandið milli Reykjavíkur og nágrennis Reykjavíkur annars vegar og hins vegar landbúnaðarsveitanna austan fjalls, en samgöngurnar milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur vegna Hafnfirðinga sjálfra er að vísu aukasjónarmið. En það á ekki að spilla neinu máli, þó að fleiri en einn geti haft not af sama hlutnum. Og þó að þetta sjónarmið hafi verið hjá mér, að Hafnfirðingar gætu notið vegarins, þá ætti það ekki að verða til þess að draga úr gildi málsins í augum hv. alþm. eða rýra það gagn, sem Alþ. teldi, að þessi vegarlagning gæti haft í för með sér.