11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (4262)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Jón Pálmason:

Ég verð að segja það, að ég varð dálítið undrandi, þegar ég sá þessa þáltill., sem hér liggur fyrir. Ég hafði heyrt talsvert um það talað meðal hv. þm., að á þessum fyrri hluta Alþ., sem hér er nú háður, væri ætlunin sú að afgreiða ekki mikið af öðrum málum en þeim, sem þingið nú var sérstaklega kvatt saman til að afgreiða, og ætti því sízt að fara að eyða tíma í að taka ákvarðanir um mál, sem hefðu í för með sér stórkostleg útgjöld. Það eru nú liðnir um það bil tveir mánuðir, síðan hér á Alþ. voru afgreidd fjárl., og ég hygg það ekki ofsagt, að það séu einhver þau ógætilegustu fjárl., sem hæstv. Alþ. hefur nokkru sinni afgreitt. Og þegar við erum nú saman komnir hér á fjárlagaþingi, — því að þetta er fjárlagaþing, þó að ætlunin sé að fresta afgreiðslu fjárl. þangað til síðar á árinu, — þá er það mjög undarleg aðferð að koma með þáltill. um að greiða í einn einasta veg 2 millj. kr. á þessu ári umfram heimildir frá fyrri tíma og á fjárl. yfirstandandi árs til þessa sama vegar.

Ég skal ekki fara út í neinar deilur um nauðsyn þessa vegar. Hún er náttúrlega á ýmsan hátt talsverð. Og margt af því, sem sagt hefur verið um þá nauðsyn, er rétt út af fyrir sig, ef það á annað borð er orðið upplýst, að ekki sé á annan hátt betur hægt að fullnægja þeirri samgönguþörf, sem þarna er um að ræða. En þegar það hefur nú sýnt sig, að á undanförnum tveimur árum og þar með á sl. sumri hefur ekki verið hægt vegna fólksleysis að láta vinna að vegarlagningu á þessari leið, þá virðist mér, að nægja ætti í þetta sinn að láta vinna fyrir þá hálfu millj. kr., sem heimild er fyrir til þessara framkvæmda, og láta við það sitja, þangað til afgreiðsla fjárl. fer fram á þessu ári og teknar verða ákvarðanir um frekari fjárveitingar til þessa verks.

Það, sem hér hefur verið sagt, að það sé ekki ný aðferð að afgreiða með þáltill. stórar fjárveitingar, — eins og hv. þm. Hafnf. veik að, — þá er það út af fyrir sig rétt. Og þar býst ég við, að hann eigi sérstaklega við þá þáltill., sem samþ. var á aukaþinginu 1942. En þá stóð mjög mikið öðruvísi á. Við vorum þá á aukaþingi milli kosninga, og þá voru þm. í meiri og minni óvissu um það, eins og gefur að skilja undir kosningar, hverjir þeirra manna, er þá voru á þingi, ættu kost á því að taka ákvarðanir um það mál að kosningunum afstöðnum. Þar stóð þess vegna öðruvísi á en hér um að taka ákvörðun með þáltill. um fjárveitingu. Þá var ekki fjárlagaþing, en nú erum við hér á fjárlagaþingi, sem að vísu stendur til að fresta.

Varðandi það, sem hv. þm. Hafnf. var að tala um, að ekki mundi vera nein framkvæmd í þessu landi, sem eins mörgum mönnum yrði að gagni að koma á og þessi Krýsuvíkurvegur, þá vil ég segja, að það getur verið mjög mikið vafamál og álitamál. Ég tel t. d., að alveg eins mikið geti legið á því að tryggja samgöngurnar milli Reykjavíkur og Borgarfjarðar landleiðina, því að þar eiga ekki aðeins allir höfuðstaðarbúar hlut að máli, heldur þrír landsfjórðungar. Það er sú leið, sem þrír fjórðu hlutar allra landsmanna þurfa að nota í sambandi við samgöngur við höfuðstaðinn. — Ef því á að afgreiða stórar fjárkröfur til ríkissjóðs til vegamála og annars, þá getur það dregið dilk á eftir sér, og getur þá orkað tvímælis, hvort setja á Krýsuvíkurveginn þar upp fyrir alla aðra vegi.

Ég býst við því, að allir hv. þm. verði með því að lofa þessari þáltill. að komast til hv. fjvn. En ég vildi óska þess, að sú n. skilaði till. ekki frá sér fyrr en á síðari hluta þessa þings.