11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (4266)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Páll Zóphóníasson:

Ég geri ráð fyrir, að þessi till. fari til n., og vil ég benda á leið, sem ég hygg, að hv. flm. geti farið til að fá till. samþ.. en vafasamt er, að till. fáist samþ. eins og hún er nú.

Ég er ekki í vafa um, að þessi vegur er einn af hinum þörfustu vegum. Það er augljóst, að eins og nú hagar til um samgöngur milli Suðurlands og Reykjavíkur, þá teppast oft þær leiðir, sem nú eru farnar, en þessi leið mundi teppast mjög sjaldan. Flutningar milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur eru svo miklir, að það er mjög bagalegt, ef þeir stöðvast, en það mundu þeir mjög sjaldan gera, ef þessi vegur væri til. Ég tel miklu meiri þörf á að leggja veg þarna en upp í Borgarfjörð, sem væri að miklu leyti fyrir fólk, sem er meira og minna að leika sér. Hins vegar lít ég svo á, að það sé ákaflega óviðeigandi, ef samþ. á 2 millj. kr. fjárframlag með þál. á þingi, sem er fjárlagaþing og rétt áður en fjárl. eru samþ. Slík afgreiðsla væri til skammar og má ekki eiga sér stað. Þetta er mér svo mikill þyrnir í augum, að ég get ekki verið með till. í því formi, sem hún hefur nú, og mig undraði ekki, þótt svo yrði um fleiri. Að vísu er það farið að tíðkast að afgr. frá fjvn. till., jafnvel um hundruð þúsunda, án þess að bera þær undir þingið, og er slíkt stórkostlega vítavert framferði, sem má ekki eiga sér stað. Miklu skárra er að afgr. till. frá þinginu öllu, en er þó ekki heldur sómasamleg afgreiðsla og má ekki heldur eiga sér stað.

Mér dettur þess vegna í hug, hvort fjvn.menn vilja ekki leggja til, að till. verði breytt í loforð um að taka þessa fjárhæð upp í næstu fjárl. og áskorun til stj. að láta hefjast handa um verkið, því að væri það samþ. þannig, þá væri alla vega hægt að fá fé til að vinna fyrir í sumar. Þetta væri leið, sem ég gæti vel fellt mig við, en ég get ekki fellt mig við að samþ. 2 millj. kr. fjárveiting, sem aldrei á að sjást í fjárl., heldur aðeins í þál. — Þetta vil ég biðja n. að athuga.