03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (4269)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég leyfi mér að bera fram brtt. við till. Ég sé hér á þskj. 117, að fjvn. hefur verið sammála um að leggja til, að till. yrði samþ. með nokkrum breyt. — Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um þörf vegarins sjálfs. Það er ekki það, sem barizt er um, heldur hitt, hvort hér eigi að taka upp það nýmæli að veita stóra fjárhæð fyrir utan fjárl. á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessari till. Ég tel, að engin rök hafi verið færð fyrir því, að rétt sé eða eðlilegt, að n. leggi til, að farið verði út á þá braut að falsa ríkisreikningana, eins og lagt er til í þessari till., því að það er fals að samþ. að taka fjárhæð 1944, sem verði færð á landsreikningana árið eftir. Er ég undrandi yfir því, að þessir níu menn, sem sæti eiga í n. og margir hafa farið með fjármál landsins um langt skeið, skuli geta látið nöfn sín standa undir slíkri till.

Hér hafa farið fram umr. um sjálf fjárl. og afgreiðslu þeirra á sl. ári, og ég held, að þær umr. sýni bezt, að þetta er ekki sú stefna, sem við eigum að taka, og það alveg án tillits til þess, hvort nauðsynlegt er að leggja í þetta fyrirtæki eða ekki. Það liggja stórar fjárveitingar til þessa vegar frá fyrri árum og hafa ekki verið notaðar. Og það eru mjög miklar líkur til, að þessi fjárhæð verði ekki notuð af öðrum ástæðum á n. k. sumri, og því minni ástæða til að fara hér inn á mjög hæpna braut í afgreiðslu fjármála.

Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. og æski þess, að hún verði tekin hér til umr.