03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (4272)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki tekið til máls um þetta mál, sem hér liggur fyrir á þskj. 33, en eins og hv. þm. er kunnugt, greiddi ég atkv. á móti till. eins og hún var borin fram, um 2 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til viðbótar því, sem veitt var í fjárl. þessa árs til Krýsuvíkurvegarins. Ég á nú sæti í þeirri n., sem fjallaði um till., og get tekið það þegar fram, að ég greiddi ekki atkv., hvorki með né móti þeirri brtt., sem n. að öðru leyti varð ásátt um að bera fram, og sagði hv. frsm., að ég mundi skrifa undir nál., en gera grein fyrir afstöðu minni við síðari umr. Og skal ég nú leyfa mér að gera það með nokkrum orðum.

Þegar þetta mál var flutt hér nú og eins í sambandi við aðra þáltill., sem flutt var og er á þskj. 51, var nokkurt kapp í umr., og m. a. var látið liggja að því, að þeir, sem væru flm. þáltill. á þskj. 51, — en þar er ég nú, sem sumir kalla ljósið í rófunni, síðasti meðflm., — virtust ekki vera vinsamlegir þessu máli, sem flutt er hér á þskj. 33, og var talið, að hin síðari þáltill. væri sett til höfuðs hinni fyrri. Ég býst nú ekki við, að svo sé um þá aðra hv. flm. þeirrar þáltill. en mig. En ég sagði hv. flm. að þessu máli, þáltill. á þskj. 33, að svo væri einmitt ástatt um mig, að ég hefði með síðari till. viljað hnekkja fyrri þáltill., og er skylt, að ég geri grein fyrir því. En ég geri ekki ráð fyrir, að neinum detti í hug, að ég, sem er fulltrúi fyrir Reykjavík hér á Alþingi, sé mótfallinn öruggum samgöngum milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. Ágreiningurinn er einungis um það, með hvaða aðferð þessum málum verði bezt borgið. Og ég get skilið þá menn báðum megin Hellisheiðar, sem leggja mjög mikið kapp á að gera þessa samgönguleið örugga. Og sennilega á Reykjavík engu minna undir því en þær sveitir, sem liggja austan fjalls. Ég skal ekki fara út í þessa sálma neitt frekar.

Það kom fram í umr., að flm. þáltill. töldu sig vera að vinna fyrir Reykjavík að verulegu leyti og að sjá fyrir velfarnaði barna og annarra, sem ekki mega án mjólkur vera. Ég trúi því vel, að þeir hafi það mjög fast í huga. En það ætti þá ekki síður að vera ríkjandi í mínum huga, sem á að minnsta kosti að leggja fram minn skerf til þess að sjá fyrir þessu öryggi. En það er svo um þessa vegarlagningu um Krýsuvík, að það mál hefur frá öndverðu verið sótt af mjög miklu kappi og ekki verið leitað venjulegs undirbúnings undir það. Það hefur hins vegar verið beitt ákaflega einhliða og mikilli „agitation“. Og vitanlegt er það, að búið er að vekja mikið kapp fólks, einkum austan fjalls, um þessa leið. En það er tiltölulega auðvelt mál, ef mál er flutt hlutdrægt og blekkjandi, að vekja kapp manna með því. Og ég tel engan vafa á því, að það hafi verið flutt a. m. k. mjög einhliða að leggja til, að lagður yrði vegur Krýsuvíkurleiðina. Það er eðlilegur hlutur, ef komið er til manna, sem eiga mikið undir því að koma afurðum sínum til sölustaðar, og þeir spurðir, hvort þeir séu ekki með því að bæta samgöngurnar, að þeir segi jú. Og það er hægt að spana menn til undirskrifta í þessum sökum, af því að þetta fólk hefur ekki aðstöðu til þess að kanna sjálft, hvort hér er farin tryggasta og bezta leið um vegarlagningu fyrir framtíðina. Ég legg þess vegna ekkert upp úr því, þó að harðvítugir menn og einsýnir geti spanað fólk til þess að krefjast einhverra hluta, sem það ber ekki skyn á.

Það, sem að mínu viti ber fyrst að athuga, þegar um slíkt er að ræða sem öryggi samgangna milli byggðarlaga, það er, hver leiðin er heppilegust. Nú hefur það verið talið, að aðalþröskuldurinn á þessari leið væri snjóþyngsli. En það er ekki eini þröskuldurinn. Eitt af því fyrsta, sem menn spyrja um, er, hvaða leið er stytzt og ódýrust, ekki aðeins ódýrust í lagningu, heldur verður hagkvæmust og ódýrust þeim, sem um langa framtíð eiga að búa við þessar samgöngur. Nú hefur verið gengið svo langt í meðmælum með Krýsuvíkurleiðinni að segja, að það sé nú sannað mál, að sú leið teppist aldrei fyrir snjóþyngsli. Þetta er ekki nema staðhæfing. Það eina, sem við höfum öruggt, er, að eftir því sem landið liggur lægra yfir sjávarmál, eftir því eru meiri líkur til þess, að leið um það verði opin vegna snjóa. En engin af þeim leiðum, sem um hefur verið rætt, — ekki nokkur þeirra, — er örugg um, að hún teppist ekki vegna snjóþyngsla. Meira að segja þegar vegamálastjóri lét rannsaka þetta mál og lét rannsaka snjóþyngslin á Krýsuvíkurleiðinni, sem þá var byrjað að leggja, fékk sú leið þann vitnisburð, að oft væru mikil snjóþyngsli á þessari leið. Og ég var með í leiðangri í vinsamlegu boði Krýsuvíkurmanna til að athuga þessa leið nú á þessum vetri. Við vorum óheppnir, því að veður var óhagstætt, en þó gat maður komizt að raun um, að leiðin var ekki örugg fyrir snjóþyngslum. Ég sá í blöðunum, að einhver var þá rétt á eftir að segja frá því, að þessi leið hefði þá verið alveg hrein. En það er sannast mála, að við komumst ekki nema lítinn kafla af henni, því að það er ekki búið að leggja nema lítinn kafla af henni. En á þeirri leið, sem búið er að leggja veg á af þessari leið, urðum við hálffastir í snjó og komumst með naumindum til sama lands. — En það raskar því ekki, að eftir því sem leiðin liggur lægra yfir sjávarmál, eftir því verður hún oftar fær. Öryggið liggur þess vegna í því, að til séu sem flestar leiðir austur. Og eftir að Þingvallaleiðin opnaðist, en síðan eru ekki nema þrjú ár, hefur öryggið aukizt stórlega um að komast á milli þessara byggðarlaga báðum megin Hellisheiðar.

Það, sem menn líta á auk öryggisins, það er, eins og ég sagði, kostnaðurinn, hvað kostar að leggja þessa vegi. Nú hefur verið gerð áætlun um kostnað við vegarlagningu um Krýsuvík. Og eftir þeirri áætlun á sá kafli, sem nú er ólagður, að kosta 5 og 1/2 millj. kr., og er sá kostnaður miðaður við kaupgjald, sem er 5 kr. á tímann. Nú er það kaupgjald, sem við þá vegarlagningu kæmi til greina, í dag kr. 6,35 á tímann, og því mundi þá þessi kafli kosta eftir þessari áætlun um 7 millj. kr. Á þessu geta náttúrlega orðið skekkjur, bæði til lækkunar og hækkunar. Bæði gæti það orðið til lækkunar á kostnaðinum, að vinnuaðferðir gætu e. t. v. orðið umbættar frá því, sem nú er, með því að notuð yrðu stórvirkari vinnutæki, sem gætu lækkað þessa 7 millj. kr. upphæð. En aftur á móti kemur oft fyrir í svona framkvæmdum, að örðugleikar koma til, sem ekki hefur verið hægt að sjá fyrir fram, hleypa kostnaðinum fram. Og það þarf ekki að búast við öðru en slíkir fyrir fram óþekktir örðugleikar mæti manni við þetta verk eins og önnur. En ég skal ekki dóm á það leggja, hvort svo muni verða. Sakir standa þannig nú, að eftir núverandi verðlagi er gert ráð fyrir, að þessi kafli muni kosta um 7 millj. kr.

Nú hafa ýmsir menn sagt, að það sé nú búið að leggja svo mikið fé í þessa vegarlagningu, að ekki geti annað komið til mála en segja B, þegar búið er að segja A. En það er nú ekki búið að leggja nema 10% í þennan veg af því, sem áætlað er, að vegurinn muni kosta. Og ég legg ekki svo mjög mikla áherzlu á þetta. Mér finnast það ekki í raun og veru rök í málinu, að ef byrjað sé á hlut, þó að hann sé ekki réttur, þá eigi að halda áfram með hann. Þá finnst mér bezt að snúa við sem fyrst. En ég legg líka mikla áherzlu á hitt, að nauðsynlegt er að fá leiðina örugga. Og þessi leið er viðbót við það öryggi. Og því lægra sem leiðin liggur, því meira öryggi er að henni til vetrarflutninga. En það kemur aldrei til mála, að þetta verði aðalleið austur. Munurinn á vegarlengd hennar annars vegar og þeirra tveggja leiða hins vegar, sem búið er að leggja, er svo mikill. Hellisheiðarvegurinn er frá Reykjavík að Selfossi 59 km, Þingvallavegurinn milli sömu staða 93 km, og þriðja leiðin, sem nú er rætt um, um Krýsuvík, er 103 km frá Reykjavík að Selfossi. Leiðirnar falla saman að austan á töluvert löngum kafla.

Nú getur hver maður skilið það, eftir þeirri geysiumferð, sem er á þessum leiðum, að það mundi muna ákaflega miklu í kostnaði, hver leiðin væri farin. Á lengstu leiðinni, sem er 44 km lengri en sú skemmsta, mundu eyðast bara í brennsluefni milljónir kr. á skömmum tíma fram yfir það, sem verða mundi með því að fara stytztu leiðina. Og þess vegna dettur engum manni í hug, ef aðrar leiðir eru færar, að fara þessa Krýsuvíkurleið, sem er lengst. Hún kæmi því ekki til greina nema þegar hún er fær, en hinar ekki, þ. e. í mestu snjóþyngslum. Ég get í þessu sambandi tekið fram, að eftir þeim upplýsingum, sem mér hafa verið gefnar um mjólkurflutningana, þegar Hellisheiðarvegurinn var tepptur, en Þingvallaleiðin opin og því farin, að það taldist 2 þús. kr. dýrara að fara með dagsmjólkina eftir Þingvallaveginum en eftir Hellisheiðarveginum, þegar hann var fær. Og þessi munur hefði ekki orðið minni, ef hina lengstu leið hefði orðið að fara.

Ég er sannfærður um, að þessi leið yrði aldrei annað en varaleið, sem aðeins yrði farin, þegar aðrar leiðir væru lokaðar. Það hefur nú verið erfitt að koma orðum við þá góðu menn, sem tekið hafa ástfóstri við Krýsuvíkurveginn, og ég hef ekki tekið þátt í þeim umr. hér í þinginu, en andstaða mín gegn þessari leið stafar af því, að ég er sannfærður um, að fyrst eigi að fullgera skemmstu leiðina, Hellisheiðarleiðina. Fyrsta varaleiðin yrði vafalaust Þingvallaleiðin, og þá ber auðvitað að fullgera þá leið næst. Loks kæmi svo Krýsuvíkurleiðin, og yrði hún ekki farin, nema báðar hinar væru lokaðar, og svo gætu auðvitað allar leiðirnar lokazt. Í sambandi við þetta má auðvitað taka fram, að uppi eru skoðanir um, að bráðlega muni verða tekin í notkun tæki, sem geri fært að flytja þungan flutning á snjó með eins konar dráttarvélum, og vel gæti verið, að það gæti komið í staðinn fyrir varaleiðirnar báðar.

Með því að mér finnst mikið hafa verið gert úr því, hve oft hafi teppzt leiðin yfir fjallið, þá held ég, að það væri rétt, að ég læsi upp, hve marga daga leiðin yfir Hellisheiði hefur teppzt undanfarin ár. Yfir þetta hafa verið gerðar skýrslur frá 1929. Það ár kom enginn dagur, að ekki væri fært yfir fjallið. 1930–1931 voru það 67 dagar, 1931–1932 22 dagar, 1932–1933 66 dagar, 1933–1934 12 dagar, 1934–1935 6 dagar, 1935–1936 37 dagar, 1936–1937 102 dagar (lengst, mjög snjóþungur vetur), 1937–1938 26 dagar, 1938–1939 4 dagar, 1939–1940 10 dagar, 1940–1941 enginn dagur og nú síðast til ársloka 1943 4 dagar. Það verður að taka það fram, að á þessu árabili, sem er 14 ár, voru engin tæki til að ryðja snjó og næstum því allan þennan tíma engin varaleið. En Þingvallavegurinn hefur nú bætt mikið úr þessu, enda tepptist leiðin engan dag 1942 og aðeins í 4 daga 1943. Ég vildi taka þetta fram, því að mér virðist þessi snjóþyngsli vaxa mönnum meira í augum en efni standa til. En þetta er reynslan.

Áður en ég geng frá þessu atriði, legg ég á það áherzlu, að það er sagt út í bláinn, þegar verið er að tala um andstæðinga samgöngubóta austur yfir fjall, því að auðvitað stafar það ekki af öðru en því, að þeir ætla að gylla sig í augum fólksins. Það er aðeins ágreiningur um það, hvaða aðferð skuli notuð. Ég er þess fullviss, að fyrst ber að fullgera aðalleiðina. Það vantar mjög mikið á, að búið sé að gera þá leið eins góða og hún getur orðið, og það vantar mikið á, að þessi Krýsuvíkursýki hafi dregið úr því, að kapp væri á það lagt að gera þann veg eins og til var ætlazt. Sama er að segja um fyrstu varaleiðina, og auðvitað á síðar að gera þá leið eins fullkomna og ætlazt er til, en mikið skortir á, og þyrfti þó ekki mikið til þess að færa þá leið á þá staði, sem eru miklu betri á vetrum en það vegarstæði, sem nú er notað. Sem önnur varaleið kæmi svo Krýsuvíkurvegurinn, ef menn hafa þá ekki komizt að raun um, að samgöngurnar ættu að vera allt aðrar, t. d. járnbraut.

Það var talað um það hér í umr. síðast, að vegamálastjóri væri á móti þessari leið og hefði sýnt því máli óvild. Ég held, að þetta sé alveg ranghermi, en hitt er annað mál, að hann tók það fram í áliti sínu, þegar frv. um Krýsuvíkurveginn var fyrst flutt, að það mætti teljast lítt gerlegt að velja þessa leið sökum erfiðleika á vegarstæði, sökum þeirra torfærna, sem á leiðinni eru. Þá var fjármagn ríkissjóðs auðvitað mjög takmarkað, og það hefur vaxið honum í augum. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi draga mjög frá vegalagningu annars staðar á landinu, t. d. Hellisheiðarveginum, en það væri ekki sanngjarnt að leggja niður að mestu leyti vegagerð í öðrum héruðum landsins vegna þessarar einu leiðar, þó að öryggi á henni væri auðvitað mikils virði. En til þess að sýna, að vegamálastjóri hefur, eftir að þessi leið var valin, ekki sýnt Krýsuvíkurveginum neina óvild, skal þess getið, að til 1940 var veitt til vegarins 338 þús. kr., en á sama tíma unnið fyrir 667 þús. kr., þ. e. tvöfalt á við það, sem var í fjárl. Þetta var allt sett í veginn í samráði við vegamálastjóra, og fer því fjarri, að það beri vott um óvild af hans hálfu, að unnið hefur verið við veginn fyrir tvöfalt hærri fjárhæð en stóð í fjárl. Ég fullyrði, að það kapp, sem á það hefur verið lagt að setja fé í þessa leið, hefur dregið úr nauðsynlegri vegalagningu annars staðar á landinu. Þetta tel ég mjög misráðið og óeðlilegt, að því er snertir aðalleiðina, Hellisheiði.

Nú þykist ég vita, að eftir þennan rökstuðning þyki mönnum undarlegt, að ég skuli ekki hafa klofið mig frá fjvn. í þessu máli. Ég skal útskýra það. Ég greiddi að sönnu atkv. móti till., á meðan hún fór fram á 2 millj. kr., en svo varð um þetta sú miðlun, að ef n. vildi mæla með fjórðungi þess, sem upphaflega var farið fram á, 500 þús. kr. í stað 2 millj., og að þessi fjárveiting yrði færð á árið 1945, mundu flm. sætta sig við það. Ég taldi mér skylt að koma eitthvað til móts við flm. og vildi gera það með því að greiða ekki atkv. á móti þessari miðlun, en greiða þó ekki heldur atkv. með henni. En af þessu vildi ég ekki slá á framrétta hönd þeirra, þegar þeir færðu sig meira til hófs en áður var, því að bæði er það, að ég tel ekki eins horfa til stöðvunar annars staðar á landinu, ef veittar eru 500 þús. kr. í stað 2 millj. kr. Og svo er ekki því að neita, að ég hef með sjálfum mér efazt um, að þetta fé yrði allt notað í sumar, og þá er gefið mál, eftir því sem gengið hefur til um fjárveitingu til þessa vegar undanfarið, að eitthvert fé verður veitt á árinu 1945. Gæti þetta þá að einhverju leyti komið í staðinn fyrir þá fjárveitingu. Af þessum sökum mun ég ekki greiða atkv. móti þessari till., þó að ég hins vegar treysti mér ekki til að greiða atkv. með henni.