07.03.1944
Sameinað þing: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (4277)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Það hefur upplýstst ýmislegt í þessu máli, síðan það var síðast til umr. hér. Hv. 7. þm. Reykv. (SK) upplýsir, að hann hafi verið með í að samþ. málið, því að flm. hafi fyrst heimtað 2 millj. kr., en vilji síðan láta sér nægja 500 þús. Í tilefni af því vildi ég mega spyrja, hvort það sé þetta, sem við hinir yngri þm. eigum að læra, að setja fram nógu háar kröfur fyrir kjördæmi okkar og slá síðan af þeim til þess að tryggja framgang þeirra. Ýmislegt fleira athyglisvert hefur komið fram í þessum umr., sem e. t. v. gefst tækifæri síðar til að taka til athugunar. Ég vil leyfa mér að mótmæla því, að hér sé þinglega farið að með því að veita fé úr ríkissjóði á þennan hátt, og tel þetta fordæmi eitt hið versta, sem gefið verði, ef till. nær fram að ganga. Meðferð málsins lýsir sér bezt með brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. Lýsti hann því, að hann kæmi hér fram með mjög auvirðilega brtt., sem væri í því fólgin að breyta aðeins upphæðinni úr 500 þús. kr. í 1 millj. kr., en hann hafði þó áður lýst yfir, að þessi fjárveiting gengi glæpi næst. Vil ég benda á þetta, ef skeð gæti, að einhver hv. þm. gæti lært eitthvað af þeirri „alvöru“, sem hér ríkir í meðferð á fé ríkisins.