07.03.1944
Sameinað þing: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (4281)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi óska úrskurðar forseta um það, hvort till. á þskj. 148, eins og hún er fram borin, fær staðizt samkv. ákvæðum laga. Í stjskr., 38. gr., segir svo:

„Yfirskoðunarmenn þessir eiga að gagnskoða árlega reikninga um tekjur og gjöld landsins og gæta þess, hvort tekjur landsins séu þar allar taldar og hvort nokkuð hafi verið af hendi greitt án heimildar. Þeir geta, hver um sig, tveir eða allir, krafizt að fá allar skýrslur þær og skjöl, sem þeim þykir þurfa. Síðan skal safna þessum reikningum fyrir hvert fjárhagstímabil í einn reikning og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um samþykkt á honum og athugasemdir yfirskoðunarmanna.“

Það er tekið fram hér, að gera eigi grein fyrir því, hver séu útgjöld á hverju tímabili. Með skírskotun til þessarar greinar verður ekki annað séð en fjárveiting með þeim hætti, sem hér er fyrirhugaður, sé beinlínis brot á stjskr.