06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (4286)

61. mál, heyþurrkunaraðferðir

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. — Ég get verið stuttorður um þetta mál, því að ekki þarf að eyða mörgum orðum til að rökstyðja, hver þörf er á, að þær tilraunir séu gerðar, sem þáltill. gerir ráð fyrir. Ég tel einnig, að í grg., þótt hún sé ekki löng, séu færð nægileg rök fyrir því, að full þörf er á, að slíkar tilraunir séu gerðar og það sem fyrst. Síðan síðustu tilraunir hafa verið gerðar hér á landi á þessu sviði, hafa í nærliggjandi löndum verið fundnar aðferðir til heyþurrkunar, sem eru í senn ódýrar og stórvirkar. Það er því full þörf, að tilraun sé gerð hér á landi, hvort takast megi að nota þessar aðferðir hér, sem fyrirfram má telja líklegt, að sé hægt, þó að ekki verði gengið fram hjá því, að heytegundir þær, sem þurrkaðar eru erlendis með þessum aðferðum, eru flestar stórgerðari en þær, er vaxa hér á landi, og því ekki víst, að sömu aðferðir dugi án breytinga.

Ég ætla ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Ég geri ráð fyrir, að öllum hv. þm. sé nægilega ljóst án frekari greinargerðar, að mikil þörf er að rannsaka þetta mál rækilega. Þar sem telja má líklegt, ef ekki víst, að þessar tilraunir verði ekki útgjaldafrekar, þá geri ég ekki ráð fyrir, að þörf sé að vísa till. til sérstakrar n., og mun því ekki gera till. um það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um till. Það mætti tala um nauðsyn þessa máls miklu lengur og ýtarlegar en ég hef gert hér, en út í það fer ég ekki nú til að tefja ekki tímann.

Ég endurtek svo ósk mína um, að málinu verði ekki vísað til n., heldur vísað beint til síðari umr.