08.03.1944
Sameinað þing: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (4301)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Ég get verið fáorður, það er heppilegast, að atkv. skeri úr um þetta, og ég sé enga ástæðu að vera með deilur hér.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Borgf., að ég hafi farið hér með nokkur stór orð, og ég get mótmælt því, að hér hafi nokkur stóryrði verið viðhöfð. En í nál. minni hl. er umvöndun, sem hv. þm. Borgf. getur tekið sem stóryrði.

Ég vil andmæla því sem gersamlega tilhæfulausu, að við í meiri hl. höfum farið með í grg. okkar eða till. nokkuð rangt eða viljað villa mönnum sýn. En ég get bætt því við, að nál. minni hl. ber vott um óvandvirkni. Það stendur hérna í því á einum stað, og ég held, að hv. þm. Borgf. hafi komið að því í ræðu sinni, eftirfarandi klausa, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Framkvæmdum í þessum greiðslum samkv. fyrrumgetinni heimild hefur ríkisstjórnin hagað þannig, að þeir einir hafa orðið aðnjótandi, sem hafa haft aðalstarf sitt hjá ríkinu. En samkv. orðalagi þessarar þáltill. hljóta allir þennan rétt, sem hafa á hendi einhver störf fyrir ríkið, þótt smávægileg séu.“ — Þetta er svo gersamlega tilhæfulaust, því að í till. stendur, að Alþ. feli ríkisstj. að greiða þetta á sama hátt og síðastliðið ár eða þar til önnur skipan verður um þetta gerð á Alþ. Við viljum fá um þetta skýran úrskurð, svo að þetta setji ríkisstj. ekki í neinn vanda, en hún viti, að það er vilji Alþ., að þessar uppbætur verði greiddar á sama hátt og verið hefur. Ég þykist vita, að minni hl. hafi alls ekki lesið till. meiri hl., því að allir hv. þm. sjá, að það er gersamlega rangt skýrt frá í nál. minni hl.

Þá vil ég gera athugasemd um það, sem eru meginrök minni hl., sem sé það, að grunnkaupshækkunin 1942, sem var nálægt 25 til 30%, hafi átt að koma í staðinn fyrir þessi fjárframlög. Ég vil í fyrsta lagi segja það, að ég hef aldrei heyrt þetta sett í samband hvort við annað fyrr en nú, að minni hl. grípur til þess. En þetta er alrangt, svo sem ég skal sýna fram á. Þessar uppbætur eru alls ekki miðaðar við framfærslu manna, það vita þessir hv. þm. í minni hl., að þær uppbætur eru greiddar algerlega án tillits til þess, hvort menn hafa marga á framfæri eða fáa. Það er gersamlega óviðkomandi því, og ég hygg, að enginn setji það í samband hvort við annað, enda hefur Alþ. og ríkisstj. í tvö ár greitt út barnastyrkina, eftir að þessi 25 til 30% hækkun var orðin að lögum. Svo það er ekki hægt að halda þessu á lofti.

Þá vil ég koma að því, að það er fjarri flm. till. á þskj. 116, að þeir vilji fara með rangt mál um það, er varðar kostnað við þessar greiðslur. Það er tekið fram í grg. till., gagnstætt því, sem hv. þm. Borgf. vildi vera láta, að þar sé átt við kostnað ríkissjóðs, því að ég vissi, að ekki væri í fljótu bragði hægt að segja til um kostnað allra ríkisstofnana, hvað þetta snertir, og tók ég það því fram, að kostnaður ríkissjóðs væri 225 þús. kr., en þar að auki væru þær stofnanir, sem snerta ríkið og bæjar- og sveitarfélög. Hér hefur því ekki verið farið með rangt mál í neinu. En mér skildist á ræðu hæstv. fjmrh., að þessi upphæð mundi verða meiri 1943 en 1942 og væri nú þegar 215 þús. kr. fyrir árið 1943. Mér skildist líka, að þetta væri breytilegt frá ári til árs, þar sem þessi upphæð var 288 þús. kr. árið 1942. Ég geri ráð fyrir, að fjmrn. áætli það, sem ógreitt er, og fer það sjálfsagt nærri um það, en ég álít, að það skipti ekki miklu máli, hvort upphæðin er 215 þús. kr. eða hærri. Upphæðin er ekki stórvægileg og getur ekki ráðið neinu um úrslit málsins.

Ég vil svo mæla með því, að þessi till. gangi til atkvgr.