08.03.1944
Sameinað þing: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (4302)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Hv. frsm. meiri hl. var nú svo mjúkur í máli, að ég kannaðist aftur fullkomlega við hann, því að umr. í n. fóru einmitt fram með slíkum hætti sem hann hafði nú á málflutningi sínum.

Ég vil benda á, að það er mikill eðlismunur á þessari till. og þeirri, sem áður var samþ. um þessi efni. Áður var það lagt á vald ríkisstj. að greiða þetta, en nú er henni beinlínis falið að gera það, svo að hún er miklu bundnari líka í einstökum atriðum um framkvæmdir í málinu en hún áður var. Hitt, að fara að gera greinarmun á ríkisstofnunum, eins og frsm. vildi gera, nær vitanlega ekki nokkurri átt, því að þetta er í sjálfu sér ríkissjóður, sem greiðir allt saman, aðeins aðferðin, sem munur er á. Enda er það svo, ef tap verður t. d. á pósti eða síma, þá er það borgað úr ríkissjóði, og eins ef gróði verður, rennur hann í ríkissjóðinn. Þetta er allt sami sjóðurinn og ekki hægt að skilja neitt undan í þessu efni.

Ég vil svo aðeins út af einu atriði, sem fram kom hér, taka það fram, að þeir starfsmenn ríkisins, sem komu að máli við Alþ. 1942, fóru ekki fram á neina barnastyrki. Þeirra óskum var fullnægt, þegar grunnkaupshækkunin var samþ.

Þannig stendur þetta mál því nú og óhaggað það, sem við höfum haldið fram, að með grunnkaupshækkuninni var grundvöllurinn undir barnastyrkjunum fallinn niður.

Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta.