08.03.1944
Sameinað þing: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (4303)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Sigfús Sigurhjartarson:

.... Einn undirbúningur þessara bráðabirgðafríðinda var gerður með samþykkt laga frá 30. júní 1942, þegar heimilað var að greiða nokkrar uppbætur vegna barna á framfæri embættismanna og opinberra starfsmanna. Það er enginn efi á því, að þegar inn á þessa braut var gengið, þá var því haldið fram, að um ráðstafanir væri að ræða, sem ættu að gilda, þangað til marglofuð endurskoðun launal. yrði framkvæmd. Og það fer ekki á milli mála, að embættismenn hafa tekið við þessum uppbótum í þeirri trú, að þær ætti að greiða, þangað til búið væri að endurskoða launal. — Síðar á því ári var að því horfið að hækka grunnlaun nokkuð. Og nú er því haldið fram af hv. frsm. minni hl. n., að þessi launahækkun ætti að koma í stað ómagauppbótarinnar. Ég man ekki til þess, að fyrir liggi eitt orð um það á þingi, þegar samþ. var grunnlaunauppbótin. Og ég hygg, að hv. frsm. minni hl. n. mundi hafa til þess vitnað, ef svo hefði verið talað þá.

Ég staðhæfi líka, að það er ekki rétt með farið af hv. frsm. minni hl. n. að embættismennirnir, þ. e. a. s. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, hafi litið þannig á, að ef allir fengju grunnlaunauppbót, þá væri búið að veita þeim eitthvað í staðinn fyrir ómagauppbótina og hún mætti því niður falla. Ég hef átt tal við þessa aðila fyrr og síðar í sambandi við grunnlaunauppbótina 1942, og þeir fullyrða, að fyrir þeim hafi vakað, að þetta tvennt, ómagauppbótin og grunnlaunauppbótin, væri bráðabirgðaráðstafanir, sem mundu og ættu að standa hlið við hlið, þangað til endurskoðun launalaganna væri lokið.

Hv. frsm. minni hl. n. upplýsti, að þetta mál hefði verið rætt ýtarlega í fjvn., og tjáði, að þar hefðu legið fyrir upplýsingar frá hæstv. ríkisstj. um það, að hún mundi ekki nota heimildina til greiðslu þessara launauppbóta, sem hér er um að ræða, lengur, — og rengi ég hann ekki um það. En hitt þykir mér furðu gegna, að hv. fjvn. skuli hafa látið undir höfuð leggjast að gera hæstv. Alþ. grein fyrir þessu. Það var skylda fjvn. að láta Alþ. vita, að það væri ráðagerð hæstv. ríkisstj. að nota ekki þessa heimild, og þá gat hæstv. Alþ. tekið afstöðu til þess, hvort það vildi, að þessum uppbótagreiðslum yrði haldið áfram eða ekki.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þá furðulegu fullyrðingu, sem komið hefur fram af hálfu minni hl. fjvn., að samkv. orðalagi þessarar þáltill. hljóti allir að fá þennan rétt, sem í þáltill. er veittur, sem vinna einhver störf fyrir ríkið, þótt smávægileg séu, t. d. að ljósmæður, hreppstjórar og aðrir menn, sem hafa einhverja opinbera þjónustu með höndum, muni falla undir þessa heimild samkv. till. okkar. En það þarf ekki annað en benda á það, að í þáltill. segir, eins og hún er orðuð, ekkert annað en þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að greiða á sama hátt og sl. ár, þar til önnur skipan verður á gerð af Alþingi, uppbætur þær, er tilgreindar eru í 3. málsgr. 1. gr. laga nr. 48 frá 30. júní 1942.“ Þ. e. a. s., að hér er farið fram á, að sömu mönnum verði greiddar þessar uppbætur og sl. ár að ástæðum þeirra óbreyttum og mönnum, sem hafa hliðstæðar ástæður og voru hjá þeim, sem þetta var greitt sl. ár. Þessi þáltill., ef samþ. verður, breytir því í engu þeirri venju, sem hæstv. ríkisstj. hefur upp tekið um framkvæmd 1. frá 1942.

Að öðru leyti vil ég segja það, að mér virðist, að sú skipan, sem farið er inn á með því að greiða þessar uppbætur, sé mjög skynsamleg og eðlileg og ætti að vera bundin í launal. framtíðarinnar. Það er eðlilegt, eins og mér virtist skína í hjá hv. 2. þm. Rang., að laun séu miðuð við það, að menn með litlar fjölskyldur geti sómasamlega af þeim lifað, en að með sérstökum hætti sé séð fyrir afkomuþörfum þeirra, sem inna af hendi það þjóðnýta starf að ala upp marga nýja borgara. Þess vegna álít ég, að ríkisstj. ætti alls ekki að hverfa inn á þá braut að afnema þessa reglu um uppbótagreiðslur að svo stöddu, heldur ætti þessi regla að standa, þangað til launal. eru endurskoðuð, og þá ætti hæstv. ríkisstj., hver sem hún verður, að koma þessari reglu inn í launal.