10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (4315)

67. mál, norræn samvinna

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að blanda mér í umr., sem byrjaðar eru um styrjaldarmál, en það, sem ég vildi segja, er bara greinargerð fyrir því, hvers vegna ég mun ekki greiða atkv. með aðaltill. Það eru víst allir, sem vilja taka undir það með hv. frsm., að við viljum búa í friði og vináttu við allar þjóðir og einkanlega þær, sem okkur eru næstar og skyldastar. En ég hef það við þessa till. að athuga, að hún byrjar á yfirlýsingu um, að þessar vinarkveðjur séu sendar í sambandi við þær breyt., sem við höfum ákvarðað að gera á stjórn landsins, í sambandi við það, að Ísland hefur tekið fullkomið frelsi og yfirráð yfir öllum sínum málum. Það er sitt hvað að vilja sýna vináttu nágrönnum sínum og vinum og hitt að fara að afsaka við þessa vini sína, þó að maður hafi tekið rétt sinn, en það verður varla misskilið, eins og ályktunin hefst, að þessar kveðjur til nágrannaþjóðanna séu beinlínis afsökun á því, að við höfum tekið sjálfstæði okkar.

Þó að það sé nú svo, eins og ég sagði áður, að við höfum ástæðu til að halda vináttusambandi við hinar þjóðirnar og við höfum fyrr og síðar mætt vináttu frá einstökum mönnum og þessum þjóðum í heild, þá held ég, að ekki sé hægt að segja það með sanni, að við höfum frá neinni þeirra notið stuðnings í frelsisbaráttu okkar, svo að þessar vinarkveðjur hefðu átt betur við í öðru sambandi en þegar við höfum ákveðið að stofna íslenzkt lýðveldi.

Vegna þess, að ég vil ekki láta í ljós andúð á þessum vinum okkar, get ég ekki greitt atkv. móti þessari till. En þar sem í henni felst afsökunarbeiðni um það, sem við erum að gera, get ég ekki heldur greitt henni atkv.