10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (4321)

67. mál, norræn samvinna

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég álít, að lakar hafi tekizt en til var stofnað. Till. sem þessi eru sérstaklega vandmeðfarin mál. Allar umr. og brtt. gera ekki annað en draga úr. (BrB: Það eru horfur á, að úr henni verði skandali). Ég vil segja við þm., sem fram í greip, að það voru hans flokksmenn, sem hófu þann leik og hafa mest að því stuðlað, að svo geti farið, og áttu þeir þó hlut að samningu þáltill. og hefðu átt að geta sætt sig við hana eins og hún var.

Út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, þá vil ég aðeins leiðrétta, að í till. stendur ekki „vegna þess“, heldur „um leið“. Og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá er það vegna þess, að þetta mál er tilfinningamál, sérstaklega þar sem sambandsslit okkar við Dani fara fram á sama tíma. Og þó stríðið hafi nú áhrif um stund til að stía okkur sundur, þá endurnýjum við óefað vináttu okkar og menningarsamband að því loknu. Við eigum einmitt nú að lýsa yfir því, að við séum í hinni norrænu fjölskyldu og ætlum að vera það. — Það stendur ekki „vegna þess“. Það er engin afsökun í till., og það á ekki heldur að vera í ræðum okkar. Við höfum ekkert að afsaka.

Ég skýt því hér til hv. 2. þm. Rang., hvort hann vilji ekki taka brtt. sína aftur. Mér virtist hún ekki fela annað í sér en upphaflega till., eða svo hjó ég eftir, er hún var lesin hér upp. Yfirleitt vildi ég mæla það til allra hv. þm., er hafa flutt hér skriflegar brtt., að það er næstum óviðkunnanlegt að koma fram með þær, eins og hv. forseti sagði. Bæði hefur þetta mál verið athugað svo gaumgæfilega af n. og svo er alveg komið að þingfrestun, svo að hætta gæti verið á, að þessar skriflegu brtt. væru ekki sem þaulhugsaðastar. A. m. k. er víst, að aðrir hv. þm. hafa lítinn tíma til að átta sig á þeim, en málið aftur á móti mjög viðkvæmt og þarf allt að vera með ráði gert.

Viðvíkjandi brtt. hv. 2. þm. Reykv., er hann átti að hafa viljað koma á framfæri í skilnaðarn., þá held ég, að ég fari með rétt mál, er ég segi, að till. hans þar hafi ráðið að mestu orðalaginu á fyrri lið þeirrar till., er hér er til umræðu. Að vísu er henni þar nokkuð vikið við, en ég held þó, að fyrri liðurinn gangi einmitt til samkomulags við till. þessa hv. þm. í skilnaðarn. Ég held því, að það komi úr hörðustu átt, er þessi hv. þm. vill breyta þessu.

Ég vil segja, að ástæðan til þess, að við þrír þm. bárum fram till., voru tvær. Önnur var sú að óska Norðurlandaþjóðunum frelsis og farsældar. Hitt var, að okkur þótti ekki með öllu gerlegt að taka tvær þjóðirnar út úr og senda þeim sérkveðju. Það fær þann blæ, að gerður sé munur á þeim. En sannleikurinn er sá, að ekkert prúðmenni kærir sig um lof, sem jafnframt er selbiti til annarra, og ég efast um, að Dönum og Norðmönnum þyki betur, að hnýtt sé í hinar Norðurlandaþjóðirnar, um leið og þeim er send kveðja.

Hv. þm. Siglf. talaði hér um, hvort ekki gæti verið um hlutleysisbrot að ræða í þessu sambandi. Þetta orð er nú varla nefnandi lengur. Ættum við e. t. v. að óttast að óska öðrum þjóðum heilla af hræðslu við stórþjóðirnar?

Hv. þm. Siglf. beindi því til okkar tillögumanna, hvort við teldum þá, að Svíar og Finnar stæðu í frelsisbaráttu. Ég álít það eindregið. Svíar standa áreiðanlega í frelsisbaráttu, þótt þeir séu ekki enn komnir í stríðið. Þeir hafa með framkomu sinni sýnt, að þeir eru tilbúnir. Þeir gætu verið komnir í stríðið, áður en þessi till. verður samþ. Ég vil ekki neita þeim um, að þeir standi í frelsisbaráttu, þótt enn hafi ekki komið til vopnaviðskipta. — Finnum vildi ég sömuleiðis um leið óska heilla og senda þeim vinarkveðjur. Hv. þm. ætti að beina þeirri spurningu til Finna sjálfra, hvort þeim fyndist þeir eiga í frelsisbaráttu. Ef við ætlum að vega og meta í lófa okkar, hvort þær þjóðir eiga í frelsisbaráttu eða ekki, sem við sendum kveðjur, þá ættum við fremur að láta það ógert. Ef þjóðir leggja fram alla krafta sína og líf í stríði, þá ætti að spyrja þær sjálfar, hvort þeim fyndist þær eiga í frelsisbaráttu eða ekki. (BrB: Eiga Þjóðverjar þá í frelsisbaráttu?) Ég skal ekkert segja um það, og við erum hér að tala um aðrar þjóðir. Hv. þm. ætti að spyrja Þjóðverja sjálfa, hvað þeim fyndist um það, sem hann spurði um.

Ef við nefnum ekki nema tvær þjóðirnar, þá löstum við einn, um leið og við lofum annan. Ég trúi því ekki að svo komnu máli, að Norðmenn og Finnar séu í því stríði, að Norðmenn gleðjist yfir beinum eða óbeinum ásökunum í garð Finna. Það mun koma betur í ljós eftir stríðið, með hverjum samúðin er, hún fer ekki eftir því, hvernig afstaðan þjóða í milli er nú túlkuð af einstökum stefnum. Ég skal viðurkenna, að það er ömurlegt, hvernig Norðurlöndin virðast nú tvístruð. En ég hygg, að það haggi ekki við þjóðarsálinni, haggi ekki gagnkvæmri samúð bræðraþjóðanna á Norðurlöndum.

Ég hef áður beint því til þeirra, er borið hafa fram skriflegar till., að þeir taki þær aftur og láti atkv. ganga um þær prentuðu. Þetta vildi ég endurtaka, því að hæpið er að greiða atkv. fyrirvaralaust um brtt. við þetta viðkvæma mál, sem búið er líka að sæta ýtarlegri meðferð og undirbúningi, eins og það liggur fyrir.