10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (4325)

67. mál, norræn samvinna

Jakob Möller:

Ég vil beina þeirri áskorun til allra þeirra, sem flutt hafa brtt. við till. til þál. á þskj. 147, að taka þær aftur, ekki aðeins skriflegar brtt., sem fram hafa komið, eða brtt. á þskj. 162, heldur einnig brtt. á þskj. 197, sem er frá nm. skilnaðarn.

Allar þessar till. eru til þess eins að spilla samvinnu, en þáltill. felur í sér það, sem mér skilst, að allir þm. meini. Till. þessi kveður einmitt á um að óska Norðurlandaþjóðunum frelsis og farsældar. Hvað felst í því að óska þjóð frelsis eða Norðmönnum og Dönum frelsis? Það er sjálfsagt það sama og að óska þeim sigurs í frelsisbaráttu þeirra, en í brtt. á þskj. 162 er lagt til, að aftan við tillgr. komi: Norðmönnum og Dönum sigurs í frelsisbaráttu þeirra. Þetta er endurtekning og það sama og að segja: Við óskum Norðurlandaþjóðunum frelsis og þá þeim, sem eiga í frelsisbaráttu, sigurs í þeirra baráttu, og Norðmönnum og Dönum sigurs. — Hvað á þetta eiginlega að þýða? Mér er óskiljanlegt, að hægt sé að segja þetta á betri hátt heldur en: „óska Norðurlandaþjóðunum frelsis og farsældar“. Mér finnst allt þar með sagt. Hins vegar er brtt. á þskj. 197 frá hv. 1. þm. Reykv. og hinum tveim, sem með honum eru, en í henni er lagt til, að fyrri liður tillgr. orðist þannig: „að senda hinum Norðurlandaþjóðunum bróðurkveðjur og óska þeim farsældar og sigurs í frelsisbaráttu þeirra, og“. — Eiga allar Norðurlandaþjóðirnar í frelsisbaráttu? Ég veit ekki, hvort hægt er að segja, að Svíar eigi í frelsisbaráttu, og með því að orða gr. þannig finnst mér hún síður en svo til bóta.

Ég skora því á alla hv. þm. að greiða atkv. móti öllum þessum brtt., ef flm. brtt. vilja ekki taka þær aftur.