10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (4328)

67. mál, norræn samvinna

Hermann Jónasson:

Þær umr., sem fram hafa farið hér, eru að mörgu leyti ekki sem skemmtilegastar, og mætti segja, að þær væru ekki að öllu leyti ákjósanlegar. Það hefur verið orðað þannig af hv. síðasta ræðumanni, að afgreiðsla þessarar till. og umr. væru vel fallnar til þess að vekja tortryggni, að því er snertir afstöðu okkar til Bandamanna í styrjöldinni. Það hefði mátt svo fara, að umr. af þessu tagi hefðu verið að minnsta kosti ekki óskaðlegar og að einhverju leyti hættulegar, ef Íslendingar væru ekki sú þjóð og Alþ. sú samkoma, sem hafin eru yfir allar efasemdir í þessu máli fyrir löngu í vitund alls umheims. Við þurfum ekki að bera kinnroða fyrir utanríkispólitík okkar, og við erum ekki ein af þeim þjóðum, sem þurfa að stikla eins og á hálum ís, ekki ein af þeim, sem þurfa að snúa við smátt og smátt og breyta þeirri stefnu, sem stýrt er eftir. Við erum ein af þeim þjóðum, sem fyrst neituðu Þjóðverjum um ítök, þegar þeir óskuðu þeirra, og á tíma, er þeir voru okkar mesta viðskiptaþjóð, þegar aðrir markaðir voru okkur lokaðir og þetta gat því verið stærri fjárhagsfórn fyrir okkur en fyrir aðrar þjóðir hlutfallslega. Og við tókum Bandamönnum, þegar þeir komu hingað, að telja má með einsdæmum. Hér var ekki einu sinni skemmdur símaþráður, og hefur þetta verið fært í annála í erlendum blöðum. Og þegar verst stóð á fyrir Bandamönnum, voru gerðar einróma samþykktir um að ljá land okkar fyrir flugvelli og hafnir fyrir herflutninga. Þess vegna er það, að óhætt er fyrir okkur að tala eins og hér hefur verið gert, því að við erum hafnir yfir allar efasemdir, að því er snertir tilfinningar okkar gagnvart Norðurlöndum. Við höfum að minnsta kosti sýnt það gagnvart Norðurlandaþjóðunum hlutfallslega eins og nokkur önnur þjóð, og ég vona, að það sama verði upp á teningnum, eftir að Danir hafa tekið þá afstöðu, sem þeir að lokum hafa tekið.

Ég segi þess vegna fyrir mig, að þegar ég bar fram þessa till., þá var það til þess að reyna að koma í veg fyrir, að ágreiningur yrði um þetta mál hér á Alþ., og í þeirri von, að hin brtt. yrði dregin til baka. Ég er einn þeirra þm., sem hafa lagt mikla áherzlu á, að þessi till. yrði samþ. Ég er einn af þeim, sem hafa ekki tekið mikinn þátt í Norðurlandasamvinnu, og hef ekki hrósað þeim neitt sérstaklega, en hitt verð ég að viðurkenna, að ég hef alltaf álitið Norðurlandasamvinnu miklu þýðingarmeiri en við Íslendingar og hin Norðurlöndin hafa almennt viljað viðurkenna og að samvinna Norðurlanda eigi miklu dýpri rætur en menn, bæði hér og annars staðar, vilja stundum láta í veðri vaka. Eða hver vill efast um, að hjálp Svía til handa Norðmönnum og Finnum sé ekki meiri og bróðurlegri en á sér stað milli flestra þjóða?

Þótt ég sé einn af þeim mönnum, sem á þeim stundum, þegar málin eru heit, óska eftir, að Svíar taki upp baráttu Norðmanna, þá get ég ekki séð annað en sú barátta, sem Svíar heyja nú, sé einhver sú fremsta barátta, sem nokkur smáþjóð hefur háð í þessari veröld um margar aldir. Það eru líka allir sammála um, hvílíka dirfsku Svíar hafa sýnt með ummælum í blöðum um nágranna sína, sem búa yfir þeim eins og ránfugl. Þetta er okkar kynflokkur, sem við tilheyrum, og við eigum að vera stoltir af að tilheyra honum. Það er viðurkennt, að þetta eru einhverjar fremstu þjóðir veraldarinnar. Eitt dæmi hefur hér verið talað um, sem sannar þetta bezt af öllu, því að hvernig gæti það komið til, að Rússar eru núna að tala við Finna, nema fyrir þá virðingu, sem þessi smáþjóð hefur hjá fólksfleiri þjóðum?

Það væri leitt, ef þessi till. gæti ekki orðið samþ. einróma, eins og við gerðum okkur vonir um í skilnaðarn. En það verður að fara eins og komið er, og einmitt vegna þeirrar afstöðu, sem þessi samkoma hefur og íslenzka þjóðin, þá höfum við, sem betur fer, svo breitt bak, að við getum vel þolað það.

Ég get nú ekki séð í raun og veru, að miklu máli skipti, hvort till. verður samþ. eins og hún var upphaflega eða með þeirri breyt., sem ég ber fram ásamt tveim öðrum alþm.

Það er undarlegt, þegar talað hefur verið um frelsisbaráttu í þessum umr., að þá hefur alltaf í öðru orðinu verið talað um frelsisstríð. En frelsisbarátta er ekki það sama og frelsisstríð, því að venjulega hefur orðið „stríð sömu merkingu og styrjöld, en barátta getur verið háð með mörgu móti. Það er enginn vafi á því, að Svíar heyja sína frelsisbaráttu með því að vígbúast meir en flestar aðrar þjóðir. Finnar heyja sína frelsisbaráttu, og hver veit, við hverja sú barátta er háð? Hver veit, nema sú barátta sé einmitt háð til þess að koma þýzka hernum út úr Finnlandi, frekar en til þess að sigra Rússa? Hver veit, nema einmitt í dag sé barátta háð um þetta? En hvað þá um Svía? Hafa þeir ekki hjálpað Norðmönnum og Finnum meira en nokkur önnur þjóð, sent þeim matvæli og fatnað og tekið af þeim börn og hjálpað þeim til þess að komast út úr þessari styrjöld? Þetta er kannske eins mikil frelsisbarátta og þeirra þjóða, er berjast með vopnum, og ef til vill gengur Svíþjóð núna gegnum erfiðasta hluta sinnar baráttu. Ég held þess vegna, í sambandi við það símskeyti, sem hér var lesið upp, og ummælin eftir norsku stjórninni, að ekki sé nokkur vafi á því, að vitanlega óskar norska stjórnin Finnum sigurs í frelsisbaráttu þeirra, ekki þannig, að þeir sigri Rússa í stríðinu, heldur að þeim takist að ná samningum, sem nú munu standa yfir, og vinna frelsi sitt. Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta er einlægur vilji norsku stjórnarinnar. En að fara að gera upp á milli Norðurlandaþjóðanna í þessari till. og óska tveimur þeirra sigurs í frelsisbaráttu sinni skil ég þannig, að menn óski ekki eftir, að hin nái sigri í sinni frelsisbaráttu. (EOl: Það stendur „frelsi“ í till.) Ég skal taka það fram, að í brtt. hv. þm. Siglf. stendur: „sigurs í frelsisbaráttu þeirra“, en með því að óska tveimur Norðurlandanna sigurs í frelsisbaráttu sinni, en hin eru ekki nefnd, þá er ekki ástæðulaust að ætla, að þess sé óskað, að þau bíði ósigur. Ég veit, ef þetta yrði samþ., að varla væri hægt að álykta öðruvísi en svo, að tveimur þjóðunum væri óskað sigurs, en hinum ósigurs. Hvers vegna má það ekki standa í þáltill., að við óskum öllum þessum þjóðum sigurs og frelsis í baráttu þeirra?

Ég legg það svo fyrir skoðanir hv. þm., hvað af þessum brtt. verður samþ. Það er leitt, að koma skyldi til þessara umr., því að vonir stóðu til þess, að menn yrðu sammála um þetta. En ég endurtek það, sem ég sagði, að það vill svo vel til, að við þolum vel þessar umr. Við flestir þm. erum hafnir yfir allar efasemdir í þessu máli og getum því vel rætt það fyrir opnum dyrum.