10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (4344)

12. mál, virkjun Fljótsár

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ef þessi þáltill. verður samþ., þá verður að sjálfsögðu veitt sú ábyrgð, sem hér er um að ræða. En ég vil láta það í ljós við þessa umr., að ég get því miður ekki litið svo á, að æskilegt sé eða áhættulaust að binda ríkissjóði þennan bagga. Þetta álit lét ég einnig í ljós við hv. fjvn. Ég tel hins vegar, að hér sé stefnt í hinn mesta vanda með því að ætla ríkissjóði að bera ábyrgð á 8 millj. kr. láni handa þorpi með 3000 íbúum, og hvað þá heldur sem engin trygging er fyrir því, að virkjunin fari ekki fram úr þeim 8 millj. kr., sem nú er talið, að hún muni kosta. En það gengur vafalaust enginn hv. þm. þess dulinn, að ríkissjóður verður héðan af — eða eftir að þessi till. verður samþ. — að ganga í ábyrgð fyrir allri virkjuninni, hversu dýr sem hún verður.