10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (4346)

12. mál, virkjun Fljótsár

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Ég játa, að það eru margar óþekktar stærðir, sem til greina koma í sambandi við framkvæmdir og ekki er gott að spá fyrir fram um, hvernig verða muni eftir stríðið. En það var ráðizt í þetta fyrirtæki, og hæstv. fjmrh. gaf mér tilefni til þess að fara út í þetta með nokkrum orðum, því að hann sagði, að í þetta fyrirtæki hefði á sínum tíma verið ráðizt meira af kappi en forsjá.

Þarna er 3000 manna bær, sem er rafmagnslaus, því að þótt olíumótorstöðvar séu þar, þá eru þær svo gersamlega of litlar, að ómögulegt er við að una. Við vitum, hvað það þýðir fyrir Reykjavík, þegar rafmagnsskortur kemur fyrir. Og þegar vélarnar á Siglufirði verða að ganga með fullu álagi bæði dag og nótt og engin leið er til að stöðva þær til viðgerða nema með því móti að taka rafmagnið af öllum bænum, þá geta menn gert sér í hugarlund, hve glæsilegt er við það að búa. En svona er nú ástandið í 3000 manna bænum Siglufirði, þar sem að auki eru síldarverksmiðjur ríkisins, sem þurfa nú þegar mikið rafmagn, hvað þá heldur, ef þær væru stækkaðar. Verksmiðjurnar hafa reyndar sína eigin olíumótora, sem eru orkuver þeirra. En það er reiknað með því, að þær séu þarna með um að nota rafmagn frá Skeiðsfossvirkjuninni. Eins og nú stendur, eiga þær að taka helminginn af afli því, sem fæst með þessari virkjun. Eins liggur fyrir leyfi til handa Siglufjarðarkaupstað til þess að byggja sjálfur 5 þús. mála verksmiðju í Rauðkulóðinni, og þar kemur enn aukin þörf fyrir rafmagn, og þá verður notkun bæjarbúanna sjálfra kannske ekki orðin nema 1/3 eða 1/4 af öllu aflinu. — Það er rétt að gera sér grein fyrir þessu, þegar talað er um svo háa tölu sem 8 millj. kr. í sambandi við rafvirkjun handa bæ með ekki nema 3 þús. íbúum.

Og hvað sem líður svartsýni eða bjartsýni, þá býst ég við, að allir verði sammála um, að úr því, sem komið er, sé ekki um annað að ræða en halda áfram þessari virkjun. Ef þetta fer illa, þá er ekki um að ræða annað en ríkið taki þetta að sér og reki það áfram. Og raddir hafa komið fram um, að ríkið reki þetta fyrirtæki. Ég fyrir mitt leyti segi það almennt, að ég er ekkert hræddur um, að til þess komi, að virkjunin muni ekki geta staðið undir sér sjálf, þannig að Siglufjarðarbær verði ekki fær um að standa undir þessu, og ég býst því ekki við, að þetta verði nein fjárhagsbyrði fyrir ríkissjóð.