10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (4347)

12. mál, virkjun Fljótsár

Frsm. meiri hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég vil undirstrika betur, að ríkið á þarna á Siglufirði þó nokkuð mikið í húfi um það, að þessi virkjun komist upp. Og úr því að þessi virkjun er komin svona langt, þá yrði ekkert af því, að síldarverksmiðjur ríkisins keyptu varaaflvélar, þó að virkjunin stöðvaðist nú í bili. Ef aflvélar biluðu í síldarverksmiðjum ríkisins, sem gefa 10 þús. mála afköst, og ef það tæki 10 daga að útvega aðrar aflvélar, — og á stríðstímum gæti maður búizt við, að það gæti dregizt lengur að fá þær en á friðartímum, — þá mundi þetta 10 daga hlé þýða 100 þús. síldarmála minni afköst. Síldarverksmiðjurnar yrðu þó að greiða í vinnulaun og ýmsan kostnað annan um hálfa til heila millj. kr. af þessu 10 daga hléi. Og þó að menn segi, að það sé hægt að komast hjá þessu með því að kaupa varaaflvélar, þá vita menn, að engum stjórnanda verksmiðju mundi detta í hug að kaupa slíkar vélar, ef rafvirkjun væri í framkvæmd, sem innan skamms væri búizt við, að kæmi til nota fyrir verksmiðjuna.

Ég ætla ekki að rökræða við hæstv. fjmrh. Það er ekki eins og Siglufjörður sé eignalaus bær. Og allar eignir bæjarins eru þarna að veði og þar með síldarverksmiðja bæjarins, sem ekki mundi verða seld nú fyrir minna en 2 millj. kr. og engar skuldir hvíla á. (Fjmrh.: Hvað eru eignirnar miklar?) Ég skal láta hæstv. fjmrh. hafa efnahagsreikning bæjarins fyrir s.l. ár. — Um það, að þessu máli hafi verið hrint í framkvæmd meira af kappi en forsjá, má segja, að mönnum lízt alltaf nokkuð mismunandi á hlutina. Hæstv. ráðh. finnst kannske, að Siglfirðingar hafi sótt þetta mál af nokkuð miklu kappi. Hins vegar kann að hafa verið nokkuð mikið kapp af hans hendi í afskiptum hans viðkomandi því, hvort ætti að framkvæma það, sem þingið var búið að gefa út sem sinn vilja.