22.02.1944
Sameinað þing: 20. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (4367)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Það skyldi enginn ætla, að þessi till. sé borin fram sem endanleg úrlausn þess máls, sem hún fjallar um. Hún er hins vegar borin fram sem tilraun til að nálgast úrlausn á því máli, sem svo miklum ágreiningi hefur valdið og svo margar kenningar hafa verið á lofti um. Það þarf ekki að minna á, að þetta málefni, fullkomnar samgöngubætur milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, hefur oft verið ofarlega á baugi og hefur verið rætt á ýmsa vegu um 30 ára skeið. Ég tel, að það byrji með járnbrautarhugmyndinni og málafylgju Jóns Þorlákssonar, en síðan eru þrír tugir ára. Og síðan hefur málið aldrei sofnað, og hefur aldrei verið horfið frá því, að eitthvað bæri að gera í þessu efni, þó að till. hafi að formi og efni tekið breytingum og stakkaskiptum og fram hafi komið svo að kalla jafnmargar till. og tillögumenn. Ætla ég, að hinir vitru menn, sem lagt hafa til málanna, séu orðnir heill tugur að tölu, og munu hafa verið fluttar till. um tíu aðferðir um það, hvernig málunum skuli háttað, og hver um sig flutt af jafnmiklum sannfæringarkrafti. Sú till., sem ferskust er í minni, er sú, sem borin var fram á síðasta hausti um að leggja steinsteyptan veg austur yfir Hellisheiði, og lægi næst, að þar fylgdi nokkur alvara og að henni yrði gefinn nokkur gaumur, enda vill svo til, að meginþorri þm. reyndist þessari till. samþykkur. Ég tek það fram fyrir mitt leyti, að ég greiddi þeirri till. atkv. mitt, ekki af því að ég væri ánægður með orðalagið, því að ég taldi málinu helzt til þröngur stakkur skorinn með því. Ég vildi hafa grundvöllinn víðtækari, og þess vegna greiddi ég atkv. með brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. Allt, sem kemur fram og bendir á ótvíræðan vilja til þess, að eitthvað sé gert í þessu nauðsynjamáli, tel ég skyldu mína að styðja, og mun ég jafnan fylla þann flokk, sem sýnir góðan vilja hér um, þó að ekki sé að öllu leyti verið sammála um aðferðir.

Það er ekki til neins að vera að rekja málið frekar. Ég hef nefnt hinar mörgu till., fyrst járnbrautarhugmyndina, þá till. Björns Kristjánssonar um meira eða minna yfirbyggðan veg, till. um að leggja veg um Þrengslin og svo hvað af öðru. Ég er ekki að mæla með eða móti neinni einni af þessum till., það er ekki mitt fag, en það er styrkur minn í þessu vandamáli, að ég er í tölu þeirra manna, sem vita, hver nauðsyn er hér á ferðinni.

Ég er ekki í tölu þeirra manna, sem lítið vit hafa á málunum, en segja þó: þetta á að gera, en ekkert annað. Ég vil, að bent sé í átt til úrlausnar af einhverjum, sem vit hafa á, ef til eru í landinu, og þykir mér þá illa farið kunnáttu verkfræðinga vorra, ef enginn fyrirfinnst í þeirri stétt, sem hægt er að treysta í þessum efnum. Ýmsir hafa talið vafasamt að bera fram og samþ. till. eins og þá, sem hér um ræðir, vegna þess að þetta hafi svo lengi verið í rannsókn og sé í rannsókn. Hvað stoði svo að vera að leggja málið í n.? Við höfum milliþn., og hvernig hafi þær gefizt? Það er satt, að við höfum milliþn., og þær hafa gefizt misjafnlega, sumar hafa komið að gagni, sumar hvorugt, sumar kannske orðið að einhverju ógagni. Þetta er allt til. En það getur ekki staðið svo á, að slík milliþn. geti ekki átt rétt á sér. Það þótti t. d. sjálfsagt að skipa milliþn. í rafmagnsmálinu, — og hví þá ekki um þetta mál?

Það eru, eins og kunnugt er, samgmrh. og vegamálastjóri, sem mest hafa um þessi mál að fjalla, og vegamálastjóri hefur gert till. um þau hvað eftir annað, en um þær till. mætti ef til vill segja, að um þær hafi farið eins og um deigt járn, þegar það mætir hörðu, að þá vill það ekki bíta. Þetta er ekki áfellisdómur á neins manns gerðir, heldur er hér verið að segja söguna eins og hún hefur gengið. Ég tók það fram og legg áherzlu á það, að ég leiði hjá mér að gera upp á milli þessara till. eða skera úr um það, hver þeirra sé hentugust. Bezt held ég að væri, að sérfróðir menn í þessu efni gerðu ýtarlegar till. og skæru úr um gagnsemi þessara aðferða, þannig að vænta mætti heppilegrar niðurstöðu, sem Alþ. gæti fylkt sér um.

Það er sérstök ástæða fyrir mig að minna á það síðasta, sem um er að ræða í málinu og lýtur að þessum samgöngumálum, sem sé þá till., sem nú liggur fyrir Alþ. um fjárframlag til Krýsuvíkurvegarins. Þegar ég minntist á þetta um daginn, áður en till. fór til fjvn., lét ég hið sama í ljós og áður, er þessi mál hefur borið á góma: Mig skortir trú á, að þetta sé framtíðaröryggi til þeirrar þjóðarnauðsynjar á samgöngubótum, sem nú er fyrir hendi. Ég er ekki að endurtaka það, enda er það óþarfi. Afstaða mín er staðfest. Hins vil ég láta getið, að nú er, eins og kunnugt er, búið að veita allmikið fé til þessa vegar, að ég hygg 700 þús. kr. Það verður auðvitað svo, að hann verður að einhverju meira eða minna gagni, hvort sem hann verður til að leysa þennan hnút eða ekki. Þá er þess að gæta, að þetta mál er svo langt á veg komið og sá skaði, að þessu fé væri kastað á glæ, að ég get ekki annað en greitt þessari till. atkv. mitt sem sunnlenzkur fulltrúi. Ég vil láta þessa afstöðu mína ótvírætt í ljós. Einhverjir hafa haldið því fram, að till. sú, sem hér liggur fyrir, geti orðið til skemmdar fyrir Krýsuvíkurveginn, en ég tel það fjarstæðu eina. Samkvæmt orðalagi þessarar till. á n. að gera samanburð á þeim leiðum og úrlausnaraðferðum, er ræddar hafa verið og lúta að þessu málefni. Það hefur verið á orði haft, að frestur til að skila nál. sé of stuttur, en hann er til maíloka. Það má kannske segja, að hann sé fremur stuttur, en ég held, að hann sé nægilega langur til þess, að n. fróðra manna gæti gefizt tími til að kynna sér málið og gefa út nál., og miða ég þá við það, að unnið sé úr gögnum, sem fyrir hendi eru, því að vegamálaskrifstofan hefur næg gögn um málið, aðalmælingar og snjómælingar frá ýmsum árabilum. Auðvitað getur áætlun kostnaðar sveiflazt til eftir verðlagi, en annars hygg ég, að þetta væri vorkunnarlítið. Ef það er rétt, að fresturinn sé of skammur og n. þurfi langan tíma til stefnu, þá gæti maður í því sambandi eins vel nefnt nokkur ár, því að fram í framtíðina getur maður ekki spáð, en sé miðað við reynslu líðandi stundar, ætti að vera hægt að vinna úr gögnunum á þessum skamma tíma. Ég býst við, að ef sú aðferð verður höfð, sem gert er ráð fyrir í till., að kosin sé 5 manna n. af Alþ., verði þeir menn valdir, sem eiga auðvelt með að átta sig á málefninu og því, sem fyrir hendi er, eins og á er drepið í grg. Þeirra upplýsinga, er n. kynni helzt að vanta, um erlendu þróun í samgöngumálum til hliðsjónar við starf sitt, gæti hún eflaust aflað sér, og mætti benda á, að margt mætti læra af reynslu þeirra erlendu manna, sem nú um árabil hafa verið hér nærri okkur.

Ég vil segja, að ég álít, að öruggt muni verða að fela Alþ. sjálfu, hvernig þessir menn skuli skipaðir, og treysta á, að það skipi ekki aðra en þá, sem hafa þekkingu og eru góðir og gegnir til að leysa málin vel af hendi og án togstreitu. Ég get samt sem áður sagt það sem mína persónulegu skoðun, að ef till. kæmi fram um að skipa n. öðruvísi og tryggt væri, að einungis fagmenn yrðu valdir í hana, þá hefði ég ekkert við því að segja, ef það yrði ekki til að bana till.

Ég vil svo ekki fjölyrða frekar um þessa till. Ég er búinn að geta um þessa viðleitni, að láta n. beztu manna, sem Alþ. ákveður sjálft, gera till. til endanlegrar úrlausnar um þetta, og sé það tekið með alvöru af þingflokkunum, þá er það meiri bending til úrlausnar en hinar aðferðirnar, eins og till. um að fela ríkisstj. og vegamálastjóra úrlausnina, því að það hefur reynzt veikt hingað til, þó að við flestir eða margir værum með nýrri till., ef eitthvert öryggi væri í henni. Þá vitum við það jafnframt, að það eru til þingmenn, sem segja, að þetta mál leysist aldrei, fyrr en þessi eða þessi aðferð er höfð. Það eru til hreinir og beinir járnbrautarsinnar, og sumir hv. þm. segja, að það verði að gera yfir veginn á ýmsum köflum. Aðrir segja, að það, sem þurfi, sé snjóplógur eða snjóbíll. Þegar þetta vegur hvað á annað, þá er ekki von, að vel fari. En það er líka styrkur í þessu, og þetta ætti ekki að verða málinu til dráttar og óþarfi að ætla, að svo verði, ef heppnin yrði með. Ótti við, að n. geri ekki það, sem henni yrði falið að gera, það á að vera ástæðulaus ótti, því ég geri ráð fyrir, að í þeirri n., sem kosin yrði, væru menn með góða þekkingu, sem færðu sér í nyt þá reynslu, sem byggja mætti á. Ég hef ekki ástæðu til að ætla, að sundurþykki sé svo mikið eða ríkt hér, að aldrei megi ætla, að sæmilegir menn verði á eitt sáttir og komi sér saman um niðurstöður, og því síður, að þingflokkarnir geri sig seka í því að velja óhæfa menn í þessa n. Við höfum blátt áfram ekki leyfi til að hugsa þannig.

Ég vil svo, að þessu athuguðu, ekki tefja hv. Alþ. með fleiri orðum um þessa till. Hún er tilraun til þess að nálgast úrbætur, en hún á ekki að geta orðið til þess að brjóta þær byrjunarframkvæmdir, sem hafnar eru á Krýsuvíkurveginum. Hann er kominn af stað og verður gerður og kemur einhverjum að notum, hvort sem hann verður til bóta á því, sem hér er um rætt, eða ekki. Þess vegna á það að geta farið saman að samþ. þessa till, og till. um Krýsuvíkurveginn, eins og ég mun sjálfur gera.

Að svo mæltu vil ég taka það fram, að þetta er þannig lagað mál, að ekki er um annað að ræða en rannsóknaratriði og að n. fái greiddan kostnað við störf sín úr ríkissjóði. Mér finnst því óþarfi að vísa till. til þingn., úr því ekki er kostur að vísa henni til samgmn., þar sem hún hefði átt heima, en ef einhver vildi endilega, að n. tæki hana til athugunar, þá væri það helzt fjvn., sem líka fékk til meðferðar till. um Krýsuvíkurveginn. Að svo mæltu mun ég láta máli mínu lokið.