22.02.1944
Sameinað þing: 20. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (4368)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Þegar ég leit á þessa till. og nöfn flutningsmanna hennar, þá þóttist ég renna grun í, að það mundi vera eitthvað annað, sem fælist í henni, en það, sem mér fannst, að till. sjálf gæfi til kynna. Ég þóttist alveg öruggur um það, að margir af flutningsmönnum þessarar till. hefðu áhuga á því að bæta úr samgönguörðugleikunum á leiðinni austur yfir fjall og gera hana örugga að vetrarlagi. Ég geri ráð fyrir, að unnið verði að öðrum samgöngubótum, sem Alþ. hefur gert samþykktir um, og að þær eigi fyllilega sinn mikla rétt á sér. En eftir er sá þáttur óleystur, þótt umbætur á Hellisheiði verði gerðar, sem ákaflega miklu máli skiptir, en það er að fá samgöngur nokkurn veginn jafnöruggar austur yfir fjall og þær eru á láglendinu austan og vestan Hellisheiðar. Vitaskuld kemst maður ekki lengra í umbótum í þessu máli heldur en að reyna að gera sambandið milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins það öruggt, að hægt sé nokkurn veginn jafnt að ferðast yfir fjallið og láglendið vestan og austan Hellisheiðar.

Mér þykir vænt um, að þessi grunur minn hefur reynzt réttur, að það muni í raun og veru hafa vakað annað fyrir þessum flutningsmönnum heldur en beinlínis þetta atriði í samgöngumálunum, og ég byggi þessa skoðun mína á nokkrum ummælum í ræðu hv. flm. Hann sagði, að hann væri því fylgjandi, að haldið væri áfram með Krýsuvíkurveginn, hann yrði byggður og þær umbætur á honum gerðar, sem nauðsynlegar eru, því eins og hann réttilega veik að, þá verður að fullgera hann til Krýsuvíkur að vestanverðu, til þess að hann komi að einhverjum notum. Það er líka mikil þörf fyrir hann þangað, því þar eru ræktunarskilyrði og stendur til að nota það gróðurlendi, sem þar er. Að austanverðu er hann fullgerður nokkuð langt út í Ölfus, en hann kemur vitaskuld út í Selvog. Það er alveg gefið, að þetta verk á veginum verður fullgert, en þá er aðeins eftir kaflinn frá Selvogi og vestur til Krýsuvíkur. Það ætla ég, að séu nítján til tuttugu km. Vegarstæði er þar, að ég held, yfirleitt gott, sums staðar mjög gott og auðvelt að leggja veg. Það getur því ekki verið neitt vafamál hjá þeim mönnum, sem bera þetta mál fyrir brjósti og bera skyn á nauðsyn þess, að það á að fullgera þennan kafla milli Selvogs og Krýsuvíkur. Þá er búið að tengja þessa vegi saman, og ég hygg, að með því sé þá búið að tryggja möguleika á því að halda uppi samgöngum með þeim tækjum, sem við höfum, eins öruggum og verða má að vetrarlagi. Það er reynsla fengin fyrir því nú, að ef nokkur vetur er, þá er þar ákaflega snjólétt. Og nú í vetur, þegar snjóalög hafa verið nokkru meiri en verið hefur um skeið, sýnir það sig, að þessi leið er svo að kalla snjólaus. Þetta er svo mikilvægt, að það á að ráða úrslitum í þessu máli, og ég veit, að það gerir það hjá þingmönnum öllum, ekki sízt hjá þeim, sem áhuga hafa fyrir að fá þetta mál leyst. Þess vegna er það, að n. sú, sem gert er ráð fyrir í till. að skipa, er óþörf um þetta atriði. Þau ákvæði, sem í till. felast, og rökstuðningurinn fyrir þeim, eiga ekki hér heima. Þess vegna ætla ég þau vera óþörf.

Ég skal vitaskuld viðurkenna, að bændum austan Hellisheiðar er áhugamál að geta haldið uppi sambandi við kaupstaðina hér vestra, því aðdrættir allir og flutningar fara fram landleiðina austur yfir fjall, og svo vegna framleiðslu sinnar, að koma henni hér í verð til neytenda. En neytendum hér vestra er enn brýnni nauðsyn á að halda uppi samgöngum, til þess að geta fengið mjólk og mjólkurafurðir frá búunum austan Hellisheiðar.

Ég vil vona, að þm. Reykjavíkurkaupstaðar, ég veit um hv. þm. Hafnf., hvaða þykkju hann hefur í þessu máli, ég vil vona, að þm. Reykv. vilji leggja á það allt kapp að koma því í kring, að þessi vegur verði fullgerður. Því það getur ekki verið þeim áhugaefni, að ef nokkur snjóalög eru, þá geti liðið svo vikur eða mánuðir, að ekki kemst nema lítið eða ekkert af mjólk eða mjólkurafurðum hingað til bæjanna. Það er fráleitt að treysta á það að fá alltaf mjólk úr Borgarfirði, þegar á þarf að halda, enda fullnægir hún hvergi nærri þörf bæjanna hér, auk þess sem samgöngur við þessi héruð geta einnig brugðizt. Það leysir því ekki málið, þegar lokuð er leiðin austur yfir fjall til Suðurlandsundirlendisins. En mjólk er sú nauðsynjavara, sem börnum og unglingum og öldruðu fólki og sömuleiðis mönnum, sem eitthvað er að, er alveg lífsnauðsyn að geta fengið í eins miklum mæli og þeir frekast þurfa með. Ég vil síður en svo fara að segja nein ávítunarorð til þessara hv. þm., en það má furðu gegna um okkur alla, ég undanskil mig ekki, hvað við höfum verið seinlátir með að leggja kapp á að fá Krýsuvíkurveginn fullgerðan, til þess að hafa hann, þegar samgöngur yfir Hellisheiði lokast. Ég vil því mega vænta þess, að hv. flm, þessarar till. vilji alvarlega greiða fyrir því, að haldið verði áfram með Krýsuvíkurveginn hindrunarlaust og gert það, sem hægt er, til þess að fullgera hann. En ef menn kynnu að koma auga á, að aðrar frekari umbætur mætti gera á samgönguleiðunum og að annað og meira þurfi að gera í framtíðinni til þess að fá samgöngurnar fullkomlega öruggar, þá skilst mér, að ekkert væri á móti nefndarskipun til þess að athuga slík mál. Það er minnzt á járnbraut og líka rafknúna járnbraut, sem til mála gæti komið. Rannsókn á þessum málum getur ekki farið fram nema á löngum tíma og við aðrar ástæður en þær, sem nú eru í heiminum, og um allt þetta þarf að afla fræðslu erlendis, en það getur orðið nokkur bið á, að hún fáist.

Geti menn búizt við og hafi trú á, að slíkar umbætur verði framtíðarleið, þá ber vitaskuld að byrja á að athuga það sem fyrst og vanda til þess máls, svo sem verða má. Ef þessari þáltill. yrði breytt í slíkt horf, þá er síður en svo, að ég vilji andmæla slíkri athugun, en hún á ekkert skylt við það að fullgera þann veg, sem lögboðinn er og alllangt kominn, sem sé Krýsuvíkurveginn.

Ég vil nú gera það að till. minni, að þar sem hér er um stórt vandamál að ræða, þá verði nú sem fyrst þessari umr. frestað og till. vísað til fjvn. til athugunar. Ég tel, að það væri hyggileg meðferð á málinu, eins og nú er ástatt um það, og með því móti væri öruggt að ná þeim tilgangi, sem hlýtur að vera aðaltilgangur flutningsmanna, en það er að fá ýtarlega athugun á því, hver verði heppilegust framtíðarleið austur yfir fjall. Það mun meðal annars verða athugað, hvort það kæmi til mála að leggja járnbraut og leysa málið á þann hátt.

Ég gef ekki um að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni. Mér finnst, að ég hafi því síður ástæðu til þess, eftir að fyrsti flm. talaði og gerði grein fyrir, hvað vakti fyrir honum og þá væntanlega öðrum flm. málsins. Ég held, að ég láti því máli mínu lokið og gefi ekki um að fara nánar út í efni till. að öðru leyti eða grg. fyrir henni.