23.02.1944
Sameinað þing: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (4372)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Mér kemur það kynlega fyrir, þar sem hér liggur fyrir að ræða till. til þál. um „ákvörðun og framkvæmd gagngerðra samgöngubóta frá Rvík austur í Ölfus“, að hér skuli aðallega vera rætt um þáltill. á öðru þskj., um Krýsuvíkurveg. Þegar ég gerðist meðflm. að þessari till., var mér það ljóst, að þessi 60 km vegur milli Ölfusár og Reykjavíkur, sem nú er lagður, er orðinn það dýr, að það kostar 15 kr. að viðhalda hverjum metra, og þegar það er athugað, er það öllum ljóst, að það kemur ekki til greina að láta þennan veg tengja þessa tvo staði saman í því ástandi eða af þeirri gerð, sem hann er nú. Við flm. viljum því leita að lausn á því á hvern hátt megi fullnægja flutningaþörfinni á þessari leið í framtíðinni, þannig að þjóðfélagið geti undir risið, en til þess þarf að athuga þær leiðir, sem til greina geta komið, og hversu veginn skuli leggja. Hitt er svo allt annað mál, að hluta úr árinu verður þessi stutta leið ekki fær, og þá þarf að hafa öryggisveg. Þess vegna er það mál út af fyrir sig, hvort sá öryggisvegur skuli vera um Krýsuvík, en þessi till. snertir ekki það mál, hún snertir aðeins það, hvernig leysa eigi spursmálið um framtíðarveg milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur, sem ekki sé of dýr í viðhaldi, en það verða allir malarvegir, sem um fer eins mikill þungaflutningur og milli Ölfuss og Reykjavíkur. Ég vildi láta athuga þetta í fyrra af sérfræðingum, það var þá fellt, og ég vil láta athuga þetta enn.

Sumir menn hafa trú á Krýsuvíkurleiðinni og ýmsum öðrum, en mér nægir ekki að hafa trúna eina, ég vil að eitthvað sé gert og trúin byggist á staðreyndum. Það er vitað, að ýmsar kostnaðaráætlanir eru til um þessar leiðir, en þær kostnaðaráætlanir eru gerðar sitt árið um hverja leið, svo að engin af þeim er sambærileg. Ég flyt því þessa till. af því, að ég vil láta bera saman kostnaðaráætlanir, sem gerðar séu á sama tíma, og athuga síðan niðurstöðuna, svo að menn þurfi ekki lengur að lifa í trú, heldur í vissu um það, hver leiðin sé heppilegust.