29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (4381)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Mér þykir rétt, út af þeim ummælum, sem hér hafa fallið um það, að þessi till. væri borin fram til þess að tefja fyrir því, að haldið yrði áfram framkvæmdum við Krýsuvíkurveginn, að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni sem meðflm. til málsins. Í fyrsta lagi hef ég tekið það fram, að ég muni greiða till. um fjárframlög til Krýsuvíkurvegar atkv. Rökin fyrir því, að ég álít, að það eigi að fullgera þá leið, eru þessi: Þegar Krýsuvík er komin í vegarsamband, þá er hægt að hagnýta þau miklu atvinnuskilyrði, sem þar eru fyrir hendi. Sérstaklega er þar góð aðstaða til ýmiss konar framkvæmda vegna jarðhita, sem þar er, og Hafnfirðingar hafa í hyggju að hagnýta þetta góða land; af þeim ástæðum meðal annars er nauðsynlegt að vegurinn komist þangað suður, en þar með er ekki komið á leiðarenda. Einnig er þarna um að ræða góð landbúnaðarskilyrði og útræðisskilyrði, en þessi miklu og góðu atvinnuskilyrði eru nú ekki notuð vegna samgönguleysis. Þetta eru höfuðrökin, sem mæla með því að fullgera þennan veg. Auk þess má fullyrða, að þetta verði þrautavaraleiðin fyrir Suðurlandsundirlendið, þegar snjóalög eru sem allra mest. Þar sem þessi leið er 40 km. lengri en Hellisheiðarleiðin, verður hún auðvitað ekki notuð nema sem þrautavaraleið, þegar allt þrýtur annars staðar vegna snjóalaga. Þess vegna þarf að skera úr því, hversu bezt verði háttað samgöngubótum til Suðurlandsundirlendisins yfir Hellisheiði. Það er meginverkefni þeirrar n., sem ég tel réttlátt, að skipuð verði. Hún á að skera úr því, hvernig byggður verði fullkominn vegur yfir Hellisheiði, hvort þar á að leggja járnbraut eða fullkominn bílveg, því að þarna verður að liggja vegur svo vel úr garði gerður, að hann heyri til mikilla undantekninga.

Ég get fallizt á það með hv. 1. þm. Árn., að orðalag þessarar till. þurfi endurskoðunar, þannig að skýrt komi fram, hvað fyrir flm. vakir, en það er það, sem ég hef nú gert grein fyrir í þessum fáu orðum. Einnig getur n. tekið til athugunar, hvernig n. eigi að vera skipuð, og hygg ég, að það væri rétt að taka þar nokkurt tillit til sérþekkingar. Hins vegar hygg ég það of langt gengið hjá hv. þm. N.-Ísf. að ætla sérfræðingum einum að fjalla um málið. Allt þetta fær væntanleg n. til athugunar, og er vonandi, að n. komist að skynsamlegri niðurstöðu.