29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (4383)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég get ekki látið hjá líða að lýsa ánægju minni yfir þeim miklu framförum, sem orðið hafa á hugarfari ýmissa manna gagnvart þessu máli frá því í fyrra. Í fyrra var borin fram till. af 15 þm. um að athuga möguleika á steinsteyptum vegi yfir Hellisheiði. Fjórir af þeim mönnum, sem við nafnakall um till. í fyrra töldu þetta ekki ná neinni átt, þeir eru nú flm. að þessari till. Tveir, sem ekki voru viðstaddir atkvgr., eru nú flm.till. Þetta eru framfarir. Ég gleðst einnig yfir því, að fyrir fáum dögum var hv. 2. þm. Árn. óákveðinn í því, hvort Krýsuvíkurleiðin væri rétt og kvaðst helzt vera á móti henni, af því að hv. 2. þm. Rang. væri ekki flm. að þeirri till., en hv. 2. þm. Rang. lýsti því yfir, að af því, að hann hafði ekki fengið að vera meðflm. að þeirri till., Krýsuvíkurleiðinni, væri vafasamt, að hann gæti fylgt henni, og víst að þess vegna mundi að minnsta kosti hv. 2. þm. Árn. verða á móti málinu. En þegar hv. 2. þm. Árn. talaði áður, kvaðst hann vera óráðinn í því, hvort hann yrði með þeirri till., en nú er hann orðinn ráðinn í því að fylgja henni. Þetta er líka framför.

Það er ekkert undarlegt, þó að þessi till. komi fram, þegar það er vitað, að þessi 60 km. vegur kostaði í viðhaldi 1942 620 þús. kr. og 800 þús. 1943, sem ekki er að undra, þegar flutt eru um veginn 70–80 tonn á dag að meðaltali. Það þola engir malarvegir. Það þarf þess vegna að rannsaka, hvað hægt er að gera í þessum málum, til þess, að þjóðfélagið geti risið undir því að halda veginum við. Það var barnaskapur í fyrra, og enn meiri nú, ef þingið hefur ekki þrek til þess að setja n. í að rannsaka, hvernig á að leggja þennan veg, svo að hann sé til frambúðar.