29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (4384)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Gísli Jónsson:

Ég vil ekki láta ljúka þessum umr. svo að mótmæla ekki þeim þungu ásökunum, sem komið hafa fram í garð vegamálastjóra frá hv. þm. V.-Sk. Ég tel ósæmilegt af þingmönnum að ráðast þannig á vegamálastjóra fjarverandi. Þessi háttur var upp tekinn af hv. þm. Ísaf. á síðasta þingi, þar sem hann bar vegamálastjóra ósönnum og órökstuddum sökum. Hér er svo haldið áfram á sömu braut af hv. þm. V.-Sk., af því að hann hefur ekki getað fengið vegamálastjóra til að fallast á sínar till. um Krýsuvíkurveg. Það má ekki ráða ummælum þm. hér á Alþingi um beztu embættismenn vora, hvort þeir geta fallizt á mismunandi skynsamlegar till. hv. þm. Öðrum eins slúðursögum og hv. þm. V.-Sk. bar hér fram um vegamálastjóra leyfi ég mér því að mótmæla sem ósönnum og óviðeigandi að bera fram hér á hv. Alþ.

Úr því ég stóð upp, vil ég leyfa mér að benda á það, að hér er blandað saman tveim óskyldum málum, þessu máli, samgöngum yfir Hellisheiði, og Krýsuvíkurleið. Hv. 1. þm. Rang. sýndi, að það er allt annað, sem vakir fyrir honum og þeim, sem halda því fram, að þessi till. sé fram borin til þess að drepa málinu á dreif, heldur en umhyggja fyrir málinu. Það vakir fyrir honum að koma fram öðrum málum, sem ekki eiga eins mikinn hug hjá hv. þm. og hann vildi vera láta. Hann lýsti því yfir, að nú væri honum sama, því að nú væri búið að tryggja framlagið til Krýsuvíkur. Hér talar maður úr fjvn. og veit, hvað hann er að segja. Málsmeðferð þessa máls talar sínu máli. Hv. 1. þm. Árn. lýsir því yfir í sinni fyrstu ræðu, að ef Krýsuvíkurleiðin yrði samþ., þá væri þessi n. óþörf, en eftir að hv. 1. þm. Rang. var búinn að lýsa því yfir, að tryggt sé framlag til Krýsuvíkur, þá snýst hv. 1. þm. Árn. á móti sínum eigin ummælum. Ég var á síðasta þingi samþykkur þeirri breyt., sem fram kom frá hv. 2. þm. N.-M. um að það skyldi rannsakað í n., hversu háttað skyldi þessum samgöngubótum, en austanþingmenn stóðu á móti þeirri till. Þeir eru þó fyrstir manna til þess að heimta rannsókn í þessum málum nú, þegar þeir eru búnir að hafa út úr Alþ. nægilega margar milljónir til þess að leggja Krýsuvíkurveginn.

Ég tók eftir því, að hv. 1. þm. Árn. vildi ekki hafa neina sérþekkingu og helzt enga sérfræðinga í sambandi við þetta mál og kom með dæmi þar um, og hv. þm. V.-Sk. vildi ekki láta fara fram neina rannsókn. Þetta sýnir, hvernig þessir hv. þm. hugsa um landsins fé. Annar vill sneiða hjá sérþekkingunni, en hinn vill sneiða hjá rannsókn í þessum efnum. Það, sem hér liggur á bak við hjá þessum hv. þm., er að reyna með ofstopa að knýja fram ímyndaða hagsmuni ákveðinna kjósenda, en þannig verða ekki framtíðarmál þjóðarinnar leyst, — það þarf annað til að leysa þau.