29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (4385)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Sveinbjörn Högnason:

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. þm. Barð. Ég held, að hann hafi notað réttu orðin yfir framkomu sína nú rétt síðast, þegar hann var að tala um ofstopa. Hann segir, að ég hafi verið með órökstuddar slúðursögur um vegamálastjóra, þegar ég skýrði frá afstöðu vegamálastjóra til þessa máls. Ég ætla, að það væri rétt fyrir þennan hv. þm. að koma með skýringu á því, hvar ég hafi farið skakkt með, því það er vitanlega hverjum manni ósæmandi að segja, að maður fari með slúðursögur, en geta ekki bent á neitt atriði, sem ekki er rétt farið með. Ég vil því skora á þennan hv. þm. að koma með eitt einasta atriði, sem ég sagði, og sanna, að það sé ekki rétt, en heita minni maður, ef hann getur það ekki.