07.03.1944
Sameinað þing: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (4396)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja mál mitt, en mér datt í hug að koma með smábrtt. skriflega. Hv. þm. N.-Ísf. var að tala um, að það væru nógu margar n. skipaðar í þessu landi, þó að ekki væri lagt til að skipa eina nýja n. Ég er honum sammála um þetta, og ég hefði álitið óþarft að skipa n. í þessu máli, því að í rauninni hefur um margra ára skeið verið starfandi n. í samgöngumálunum austur, og með þáltill. í vetur var í rauninni samþ., að það skuli hafin rannsókn. En þetta hefur ekki þótt nóg, og nú er komin fram till. um að kjósa enn eina n. til þess að rannsaka málið. Það hefur oft þótt gott ráð til þess að láta mál fá hægan dauðdaga að vísa þeim til n., og má vera, að einhverjir af þeim, sem standa að því, að skipuð verði n. í þessu máli, hugsi sér að tefja fyrir því, að nokkuð raunhæft verði gert í samgöngumálunum austur. En til þess að fyrirbyggja það, að þessi n., sem sennilega verður kosin, geti lagzt á málið, vil ég leyfa mér að bera fram brtt., að á eftir orðunum „Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins“ komi: enda ljúki n. störfum svo fljótt sem auðið er.

Ég hef ekki viljað binda þetta við ákveðinn tíma; það er ekki nema sjálfsagt að gefa n. nægan starfstíma, en með því að hafa þetta þannig orðað myndast nokkurt aðhald fyrir n. að ljúka störfum svo fljótt sem henni er unnt. Ég ætla að vera með till. um nefndarskipun, enda þótt ég álíti hana að mestu leyti óþarfa, og ætlast til þess, að hún tefji ekki samgöngumálin austur, svo að enn þurfi að kjósa nýja n. og hefja á ný rannsókn í þessum málum. Bændur á Suðurlandsundirlendinu og Reykvíkingar vilja, að hafizt verði nú handa um raunhæfar framkvæmdir, en ekki látið sitja við orðin tóm. Þeir hafa í 30 ár orðið að sætta sig við, að ekkert væri gert, og munu nú krefjast, að þegar þessi n. hefur skilað áliti sínu, verði tafarlaust hafizt handa um framkvæmdir, svo að samgöngur austur yfir fjall verði öruggar allan tíma ársins.