10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (4401)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Eiríkur Einarsson:

Ég skal hafa mál mitt stutt. Mér þykir ástæða til sem fyrsti flm. þessarar þáltill. að þakka hv. fjvn. fyrir undirtektirnar. Að vísu hefur n. breytt að sumu leyti orðalagi till. og stytt að nokkru, en efnislega fær hún að njóta sín. Þess vegna er fullnægt því, sem ég vildi vera láta.

Till. eins og hún kemur frá fjvn. gengur út á hið sama, að valin sé hlutbundinni kosningu n. til þess að rannsaka og gera till. um þessar vegabætur og hverjar þær skuli vera. Að vísu liðar hún þær ekki í sundur, eins og ég gerði, en ég verð að halda, að hún miði til þess sama. Ef það væri ekki ætlun hennar, væri till. meiningarlaus.

Að þessu athuguðu hef ég ástæðu til að vera n. þakklátur fyrir að fallast á tillöguefnið.

Ég sé, að n. hefur fellt burtu tímatakmarkið 31. maí, — en það hefur hún líklega gert af því, að það fer nú að verða stutt þangað til. En hún hefur ekki sett neitt tímatakmark í staðinn, og tel ég þetta nokkurn ágalla. Hér liggur þó fyrir brtt. frá hv. 2. þm. Rang. um, að rannsókninni sé lokið „svo fljótt sem auðið er“, og tel ég þetta til umbóta og ábending til n. um að draga verkið ekki lengur en nauðsyn krefur. En brtt. er um annað fyrirkomulag en það, sem við lögðum til og hv. n. hefur fallizt á. Ég læt þessa brtt. hlutlausa. Ef meiri hl. þingsins getur fallizt á hana, þá hef ég ekkert við hana að athuga, svo framarlega sem hún verður ekki til tafar að öðru leyti.

Þó að til sé í þessari starfsgrein starfandi deild — vegamálastjórn og vegamálastjóri —, þá er það á annan veg en hér er gert ráð fyrir, og þær till., sem komið hafa fram úr þeirri átt, hafa gengið á ýmsa vegu. Stundum hefur farið um þær á aðra leið en ætlazt var til.

Það er hægt að gera að grýlu, hvað mþn. séu margar, ef allt er talið saman, en mér finnst engin ástæða til þess, því að það hefur verið venja, ef um mikilsvert mál hefur verið að ræða, að láta það í mþn. Mörg mál hafa lokizt farsællega upp úr slíkum nefndarstörfum. Það er annað mál, að það má nefna mþn., sem hafa orðið til að koma vandasömum málum af sér, vegna of mikils ágreinings og vafninga um fjármál, skattamál o. s. frv. Og annar ágalli, sem hefur verið á, er, að þær hafa verið kosnar — eins og sumir segja — til bitlingaframfærslu alþm. sjálfra, og tala ég þá frá sjónarmiði annarra.

Ég held, að í þessa n. verði þm. duglegir að velja, með tilliti til þess að fá þá menn eina í n., sem hafa besta þekkingu og mesta víðsýni. Ef þess væri ætíð gætt, gætu mþn. komið að mestu gagni. En „batnandi manni er bezt að lifa“, og mætti heimfæra það upp á Alþ. sjálft, — og gæti menn nú skyldu sinnar.

Ég vil segja, að ég kann fjvn. þakkir fyrir hennar till. og vænti þess, þó að ágreiningur einhver og tortryggni e. t. v. hafi vaknað, þá sé „mjór mikils vísir“. Ég sé, að af hálfu fjvn. eru einhverjir hv. nm. undirskrifaðir með fyrirvara og þess getið, að þeir hafi viljað láta n. starfa kauplaust. Ég vil segja, þó að nóg sé um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, þá tel ég þetta fjarstæðu.

Vil ég þá láta máli mínu lokið og leggja til, að till. verði samþ. eins og hún kemur frá fjvn.