10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (4414)

38. mál, fjárskipti í Suður-Þingeyjarsýslu

Jón Pálmason:

Mér þykir ástæða til að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, ekki sízt af því, að ástæða gæti verið til að ætla, að í henni væri mótsögn við það, sem hefur verið skoðun mín.

Ég hef verið ákaflega tregur til að fara þá leið að stofna til fjárskipta í stórum stíl vegna fjárpestar. Þó að mjög mikil vandræði séu í þessum málum, að því er snertir mitt hérað, þá yrði þó þar mjög að versna, til þess að ég yrði fús til að leggja út í fjárskipti á því svæði, enda þyrfti þá að taka fyrir mjög stórt svæði. En af því að ég hef hugsað mér að fylgja þessari till., þykist ég þurfa að gera grein fyrir, af hverju það er.

Þegar l. um fjárskipti voru samþ. 1941, voru sett inn í þau mjög ströng ákvæði, til þess að til slíks yrði ekki gripið, nema fyrir því væri almennur vilji á viðkomandi svæði og sauðfjársjúkdóman. og ráðun. væru því einnig fylgjandi. Sannleikurinn er sá, að við, sem um þau l. fjölluðum, gerðum ráð fyrir, að ef þetta allt lægi fyrir, yrði farið út í að grípa til þessara ráða. Í þessu tilfelli, sem hér um ræðir, er að vísu ekki farið fram á nema um það bil 1/3 af þeim bótum, sem ætlazt er til samkv. þessum 1., en þrátt fyrir það væri ég ekki fáanlegur til að fylgja þessu máli, ef ég væri ekki með viðtölum og bréfum frá mönnum á þessu svæði búinn að fá upplýsingar um, hversu ástandið er hræðilegt og langtum verra en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Í fyrra komu tveir bændur úr Þingeyjarsýslu sem sendimenn til að fá einhverjar úrbætur í þessu máli, og lýsingin, sem þeir gáfu og við höfðum enga ástæðu til að efa, sýndi ótvírætt, að fjárpestin hefur leikið þetta hérað svo illa, að hörmung er til að vita. Nýlega hef ég fengið bréf frá bónda í einum stærsta hreppnum í Þingeyjarsýslu, Aðaldal, og myndin, sem hann dregur upp af ástandinu þar, er svo svört, að mér þykir ástæða til að gefa hv. þm. ofurlitla hugmynd um, hvernig þar er ástatt. Þar eru um 60 bændur, og 72 ær voru áður að meðaltali í eigu hvers bónda, en nú eru þar eftir ekki nema 28 ær að meðaltali á bónda, og er þá í báðum tilfellunum tekið með það fé, sem unglingar og lausafólk á. Þegar svo er komið, er fram undan fullkominn voði fyrir þessa menn, og ástandið er þannig, að það er mjög litlu að tapa fyrir þessa menn, þó að tilraunin sé gerð. En þó að ég ætli að fylgja því, að þessi tilraun verði gerð í tiltölulega stórum stíl, þar sem á að drepa allt fé milli Jökulsár og Skjálfandafljóts, þá geri ég það með þeim fyrirvara, að látinn verði líða svo langur tími, þar til gerð er tilraun annars staðar, að reynsla sé fyrir, að hún hafi heppnazt á þessu svæði, því að bæði ég og aðrir erum tregir til að gera slíkar tilraunir og vantrúaðir á, að þær heppnist.

Þetta vildi ég taka fram, áður en til atkv. er gengið um þessa till. Þótt hún verði samþ., þá er, eins og hv. frsm. tók fram, auðvitað engin fullkomin vissa fyrir, að úr þessu verði næsta haust, vegna þeirra takmarkana, sem eru heima í héraði um atkvgr. um þessa ráðstöfun.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta, en ég býst við, að það sé talsverður ágreiningur um þessa atkvgr., hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki.