06.03.1944
Sameinað þing: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (4419)

57. mál, gufuhverir

Jörundur Brynjólfsson:

Ég skal ekkert gera til að tefja fyrir málinu, en ég vil í sambandi við afgreiðslu þessa máls víkja að því, hvort athugað hafi verið um eignarrétt þessara náttúrukrafta og þess landssvæðis, sem hér er um að ræða. Ég fyrir mitt leyti tel það vissulega þess vert, að það verði gert. Ef menn telja, að það gæti orðið til að tefja málið, þykir mér það leiðinlegt, en mér skilst þó, að þetta kunni að vera það mikilsvert atriði, að nauðsyn beri til, að fljótlega sé athugað, hvernig ástatt sé um eignaryfirráð á Henglinum og landinu þar umhverfis, áður en framkvæmdir verða hafnar.