10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (4425)

57. mál, gufuhverir

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Það er viðvíkjandi smábrtt., sem ég á við þessa till., sem ég tek til máls.

Ég er ekki ánægður með þá takmörkun, sem felst í till. Ég vildi, að samhliða yrði tekið til athugunar allt það, sem komið gæti til greina á þessu svæði. Í rauninni er ekki nema einn hver í sjálfum Henglinum, en samfelld hverakerfi eru þar í nágrenni. Þess vegna finnst mér ástæða til að spyrja hv. alþm., hvort ekki sé rétt að fella inn í till. það, sem tekið er fram í brtt. minni. Ef svo reyndist, að annars staðar væru betri skilyrði en í Henglinum, þá er að nýta þau.