10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (4427)

57. mál, gufuhverir

Emil Jónsson:

Ég þarf ekki að mæla mörg orð um þessa litlu brtt., sem ég flyt á þskj. 141, og sérstaklega þar sem hv. 1. flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir, hefur lýst sig samþykkan henni. En ég kann ekki við að segja ekkert um þessa till. við þessar tvær umr., sem fara fram um hana.

Hverasvæðið í Krýsuvík er áreiðanlega eitt af þeim hverasvæðum, sem mjög koma til álita, þegar talað er um virkjun fyrir Reykjavík og þó alveg sérstaklega þegar talað er um virkjun fyrir Hafnarfjörð. Ég hef samt, til þess að eiga ekkert á hættu um aðstöðuna gagnvart þessari brtt., ekki lagt til, að þessi rannsókn fari fram öðruvísi en í samráði og samvinnu við bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sérstaklega með hliðsjón af því, að ég ætla, að Hafnarfjörður mundi fyrst verða aðnjótandi þeirrar orku, sem þarna kynni að leiða af.

Um orkulindina sjálfa í Krýsuvík er það að segja, að ég hef kynnt mér rökstutt álit eins hins bezta fræðimanns heimsins í þessum efnum, sem hefur rannsakað Krýsuvíkurhverina, og hann segir, að þeir séu meðal álitlegustu orkugjafa hér í grennd og jafnvel þótt miklu víðar væri leitað. Þess vegna tel ég sjálfsagt, þegar um er að ræða að leita að heppilegum orkugjafa, hvort sem er fyrir virkjun rafmagns eða t. d. til hitavirkjunar til upphitunar, að ekki sé fram hjá þessu gengið. Ég hef af öðru tilefni fyrir löngu bent á þetta, en það bar þá ekki árangur.

Ég vil vænta þess, að um þetta takist góð samvinna við ríkisstj. og vænta megi mjög mikils og góðs árangurs af þeim rannsóknum, einmitt á þessum stað, og læt ég þá hina staðina alla óáreitta. Frá þeim kann að fást talsvert mikil orka. En ég veit, að þessi staður er fyrir margra hluta sakir enn þá fremri, og hef ég þar fyrir mér orð hinna erlendu fræðimanna, sem áður hafa rannsakað þennan stað með sérstöku tilliti til þessarar virkjunar.