10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (4442)

63. mál, fáninn

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég vil þakka hv. 2. þm. Rang. fyrir góðar undirtektir, bæði um málið í heild og um till. á þskj. 224. Allshn. hefur afgreitt málið fljótt, og er ég þakklátur fyrir það. Hins vegar höfum við flm. ekki að öllu leyti getað fallizt á breyt. hennar, sérstaklega ekki eina efnisbreyt. og nokkrar orðabreyt. Ég vil taka það fram, að í nál. allshn. var ein efnisbreyt., sem ég tel sjálfsagða, en það er, að frv. til fánalaga liggi fyrir á næsta þinghluta, og tókum við flm. undir það atriði. Hins vegar er sú efnisbreyt. gerð í till. allshn., að Alþ. beini áskorun til bæjarstjórna og sýslunefnda um, að reynt verði að útbreiða notkun fánans, í stað þess, að ríkisstj. geri það. Nú mætti í fljótu bragði líta á þetta sem orðabreyt., en svo er það þó ekki. Við álítum það miklu áhrifameira, að ríkisstj. leggi slíkt fyrir stjórnir bæja og sveita, en að ein ályktun sé samþ. hér á Alþ. Af þessum ástæðum tel ég hér um efnisbreyt. að ræða og tel málinu bezt fyrir komið eins og er á þskj. 224 í till. okkar hv. þm. N.-Ísf., hv. 8. þm. Reykv. og hv. þm. Mýr. Ég vona, að hv. þm. fallist á þetta, og vænti, að hæstv. ríkisstj. verði fúslega við áskoruninni.

Í öðru lagi má telja það efnisbreyt., þó ekki mikla að vísu, að við ætlumst til, að ríkisstj. hlutist til um, að fáanlegar yrðu fánastengur og annað slíkt. Þótt við tökum það ekki sérstaklega fram, var tilgangurinn sá, að ríkisstj. hlutaðist til um, að verzlunarsamtök fengju innflutningsleyfi fyrir þessum hlutum. En það kann vel að vera, að þetta sé aðeins formsatriði, sem skipti ekki máli.

Loks er í nál. allshn. sleppt nokkrum atriðum úr fyrstu till. Við tókum fram, að ráðstafanir væru gerðar til, að fánastengur og slíkt væri fáanlegt í verzlunum við sanngjörnu verði. Við áttum ekki við, að ríkisstj. legði fram fé til þeirra hluta, heldur að það yrði gert með hámarksverði. Þessu er sleppt í nál. allshn. Enn fremur var annað atriði. Það er, að tekið sé fram, að unnið sé að því, að fáninn verði í réttum litum og hlutföllum, en á því hefur oft orðið misbrestur. Þetta hefur fallið niður.

Loks er í frumtill. ætlazt til, að ríkisstj. fái heimild til að greiða úr ríkissjóði þann kostnað, sem af þessu kynni að leiða. Kostnaður getur að vísu aldrei orðið verulegur, en þó má t. d. hugsa sér, að stj. vildi fela ákveðnum manni að undirbúa fánalög. Þetta ákvæði hefur allshn. fellt niður.

Vegna þessara breyt. allshn. hafa till. á þskj. 224 verið fluttar. Þar höfum við tekið upp öll atriði í nál., sem máli skipta, og fært í betra form það, sem við gátum ekki fellt okkur við.

Við væntum, að hv. þm. geti fallizt á till., sem eru eiginlega, — eins og hv. 2. þm. Rang. tók fram, — soðnar upp úr frumtill. og nál. allshn.