10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (4443)

63. mál, fáninn

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég gerði engan ágreining um þetta mál í allshn. og skrifaði undir nál. hennar fyrirvaralaust. Ég taldi, að það, sem skipti mestu máli, væri að ákveða, að samið yrði frv. til fánal., sem lagt yrði fyrir næsta þinghluta og yrði þá samþ. Ég hef haft orð á, að þetta ætti að gera nú. Það hefur ekki verið gert, og liggur ekki fjarri að halda, að óeining sé um gerð fánans. Mér finnst, að eitt af því, sem koma ætti, sé einmitt, að við ákveðum sjálfir og myndum okkar fánal., en séum ekki bundnir við það, sem nú er. Vegna óvissu um það, hvernig fáninn verður, tel ég ekki rétt að ýta frekar á eftir því, að menn fái sér fána, en það vilja hv. flm. gera. Þeir sjá ekkert athugavert við það, að flutt sé svo mikið inn af fánaefni, að sérhver Íslendingur geti eignazt fána. Þess vegna tel ég, að nóg sé ýtt á eftir þessu, eins og sakir standa, þótt orðalag till. sé ekki haft eins og það var í upphaflegu till.

Ég mun því fallast á till. n., en legg áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. hafi fánal. tilbúin fyrir júnímánuð næstk.