10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (4445)

63. mál, fáninn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Hv. þm. Snæf. minntist á, að allshn. hefði afgreitt þetta mál fljótt. Það er rétt. Till. var útbýtt 3. marz, og þar sem þá tók að líða að þingfrestun, var annað tveggja fyrir n. að gera, að afgreiða málið strax eða láta það daga uppi. Vegna fánal. taldi n. rétt að flýta afgreiðslunni, og eins og hv. frsm. tók fram, lögðu nm. áherzlu á, að skorað yrði á hæstv. ríkisstj. að undirbúa fánal. fyrir næsta þinghluta. Ég er ekki viss um, að allshn. hefði undir venjulegum kringumstæðum gengið svona fljótt frá málinu.

Annars sýnist mér, að víðar hafi verið hraðinn á en hjá allshn. Flm. sáu tvisvar sinnum ástæðu til að breyta sínum eigin gerðum, fyrst með till. á þskj. 183 og síðan á þskj. 224, og það eru sjálfsagt margir sammála um það, að fleira mætti breyta, ef enn væri setzt niður og hugsað. Það, sem umdeilt var í allshn., var þetta, hvort leggja ætti þá skyldu á ríkisstj. að setja upp landsverzlun með fánastengur. Þetta vildi n. ekki samþ. Þess vegna var farið inn á að leggja til, að Alþ. beindi þeirri áskorun til verzlunarsamtaka að hafa fyrirliggjandi nóg af nauðsynlegu efni. Vildi ég láta þetta koma skýrt fram, en þetta kom ekki fram hjá hv. flm.

Ég get ekki fallizt á, að eðlilegt sé eða nauðsynlegt að skora á ríkisstj. að selja fánastengur og fána. Ég tel, að það liggi fyrir utan verksvið hennar að gerast þannig sérstakur verzlunaraðili með fánastengur og get þess vegna ekki fylgt brtt., — tel, að nægilegt sé að fela henni að greiða fyrir eðlilegum innflutningi á þeim vörum til landsins og láta síðan verzlunarstéttina um söluna.

Hvað snertir bréfaskriftir þær, sem þál. fór fram á, skal það tekið fram, að sé það meiningin hjá hv. flm., eins og hann minntist á, að ríkisstj. ætti að senda bréf til allra bæjarstjórna, sýslunefnda og hreppsnefnda, þá munu það vera um 500 bréf, sem send yrðu til þeirra. Allshn. felldi úr þál. heimild til að verja fé úr ríkissjóði til þessara hluta. Hún leit svo á, að ríkisstj. hefði mannafla til þess að sjá um þetta og ætti ekki að binda fé í þessu skyni.

Það, sem hv. flm. minntist á, að rétt væri að fella úr till. hin réttu hlutföll, þá vil ég benda á, að við teljum, að það atriði, hvaða hlutföll skuli vera, muni á sínum tíma koma inn í lögin, þegar þau verða samþ. Hins vegar teljum við, að það, er varðar hlutföll og liti, sé aukaatriði á þessu stigi málsins, og munum því ekki sjá ástæðu til að setja það inn.

Að öllu saman athuguðu, mun ég að sjálfsögðu halda fast við það, að samþ. verði brtt. á þskj. 177, og greiði með því atkv.

Að síðustu vildi ég aðeins minnast á, að það kom ekkert til greina raunverulega, sem hæstv. fjmrh. minntist á, að hér væri sérstaklega um þennan fána að ræða, sem nú er í gildi, því að ég lít svo á, að það sé ekkert aðalatriði, að þetta skuli vera fáni Íslands samkv. konungsúrskurði, og alltaf gert ráð fyrir því, að um sama fána væri að ræða.