15.06.1944
Efri deild: 34. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

76. mál, þjóðfáni Íslendinga

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta, en ég er á móti þessari brtt., af því að hún eykur enn meira þessa afskiptasemi, sem mér þykir ganga fulllangt í þessu frv. um notkun þjóðfána okkar. Mér þykir skína út úr þessu frv., að þjóðinni sé ekki treyst til að þykja vænt um og vilja virða fánann. Mér finnst skína út úr því þessi nýgræðingsháttur, að við séum alls staðar að láta bera á því, að við eigum fána. Meðal þjóða, sem átt hafa sinn fána um langt skeið, er þetta öðruvísi. Ég man t.d., að í æsku sá ég enskt reyktóbaksbréf, sem hét „English Flag“. Ég veit ekki, hvað Íslendingar segðu um slíkt. Þó held ég, að Englendingar virði fána sinn. Þetta er eins og um mann, sem eignast falleg föt einu sinni og þarf alls staðar að láta taka eftir þeim.

Í 12. gr. frv. — er t.d. sagt: „Óheimilt er einstökum stjórnmálaflokkum að nota þjóðfánann í áróðursskyni“, og er þar sennilega einkum átt við það, að stjórnmálaflokkar megi ekki hafa fánann á bílum sínum á kosningadögum o.s.frv. Ég skal ekki fara frekar út í þetta, en mér finnst, að með þessari brtt. sé enn verið að auka á þessa afskiptasemi. Ég veit ekki, hvernig hægt er að hafa eftirlit með þessu, — með borðfánum og bréffánum, sem settir eru á jólatré. Ég hélt, að þetta frv. ætti að fjalla um þjóðfánann sjálfan og þess vegna kæmi þar ekki annað til greina en að ákveða hlutföll hans og annað slíkt. (Forseti: Samkvæmt gr. og brtt. á þetta ekki að ná til slíkra smáfána, því að orðið „ekki“ á ekki að falla niður.) Þá finnst mér brtt. alveg óþörf, og get ég þá sparað mér frekari ræðuhöld. En ég vildi ekki láta auka á þessar takmarkanir um notkun fánans. Það er allt að því, að ekki sé óhætt að eiga fána, a.m.k. verður að viðhafa ýtrustu varfærni, svo að lögreglan geti ekki gert hann upptækan.