10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (4453)

68. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. — Það er oft minnzt á það, að hér á landi sé lítið gert fyrir sögustaði. Ég geri ráð fyrir því, að ef breyt. á að verða á þessu, þá muni helzt verða eitthvað gert fyrir sögustaði í sambandi við tímamót eða minningarhátíðir.

Ef eitthvað ætti að gera í sambandi við stofnun hins síðara þjóðveldis hér á landi fyrir sögustaði, þá geri ég ráð fyrir, að flestir landsmenn verði sammála um það, að það beri að gera eitthvað fyrir fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.

Nú er það margvíslegt, sem má gera fyrir slíkan stað. Það má gera eitthvað til þess að bæta samgöngurnar og gera mönnum greiðari götu þangað. Það má gera eitthvað til minningar um þá atburði eða þá ævi, sem þar hefur verið lifað, með því að reisa minnismerki eða með einhverju öðru slíku. Og það má gera eitthvað, sem gerir hlýlegra fyrir gesti, sem koma á þessa staði, svo að þeir fái þar þær viðtökur, sem þeir þurfa, þegar þeir koma á fræga sögustaði sér til skemmtunar og hressingar.

Nú skal ég engar tillögur gera um slíkt í þessu sambandi, hvað ætti að gera fyrir þennan stað, Rafnseyri, ef eitthvað verður gert, því að það er það, sem lagt er hér til í þessari till., að fengið sé mþn. eða n., sem sett verði til þess að undirbúa þjóðhátíð í tilefni af sjálfstæði Íslands með stofnun hins síðara íslenzka þjóðveldis.

Rafnseyri liggur vel í sveit, og áður en langt líður, verður kominn þangað bílvegur. Liggur þá þessi staður mjög miðsveitis á Vesturlandi, og munu bæði sögulegar ástæður og afstaða staðarins sjálfs beina þangað mörgum mönnum. Ég vil vænta þess, að sú n., sem sett verður vegna þjóðhátíðarinnar, geti orðið sátt um þær till., sem Alþ. litist vel á að samþ. Að þessu sinni kostar það ekkert fé að samþ. till., en auðvitað gæti slíkt leitt af henni síðar. Ég held, að það sé vel forsvaranlegt að vísa þessari till. ekki til n., enda orðið of seint að fresta umr., og vil ég því, að hún verði borin undir atkv. til samþykktar eða synjunar.