10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (4454)

68. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég held, að það hafi ekki mikil áhrif á atkvgr. um þessa till., þó að hafðar verði um hana umr. hér, þar sem fáir þm. eru viðstaddir. En þó að ég sé því á engan hátt ósamþykkur, að þessum stað verði sýndur sómi, þá finnst mér nú satt að segja till. of óákveðin, bæði að orðalagi og hugsun, til þess að það sé sæmilegt að samþ. hana beinlínis af svo miklu tilefni, sem hér er, þar sem ráðgert er að setja þetta í samband við lýðveldisstofnun á Íslandi, og eins hitt, að meðan Alþ. hefur ekki enn þá með berum orðum samþ. að tengja lýðveldisstofnunina sjálfa við afmælisdag Jóns Sigurðssonar, sem ég þó efast ekki um, að verði gert í framkvæmdinni, þá finnst mér það þó vera harla lítil uppbót fyrir það, sem upphaflega var ráðgert, og verður í rauninni sára lítil uppbót út af fyrir sig að bera fram till. um það að tengja lýðveldisstofnun á þennan hátt við nafn Jóns Sigurðssonar. Mér finnst, að sé um of mikið hégómamál að ræða til þess að bera það fram undir því yfirskini, sem gert er. Það getur verið ástæða til að hlúa að þeim stað, sem hér er um að ræða, en mér finnst ekki viðeigandi nú að gera um það svo hátíðlega samþykkt, þar sem ekki felast raunverulegar framkvæmdir í till. Mér þætti því heppilegast, að þessari till. yrði vísað til hæstv. ríkisstj., sem gæti þá e. t. v. látið hátíðarnefnd athuga þetta mál eða þá einhverja aðra menn. Hér er sennilega um það að ræða, hvort koma eigi upp skóla fyrir Vestfirði. Mér þætti nær, að til þess væri fenginn einhver Vestfirðingur, en að þjóðhátíðarnefnd fengi þetta til ákvörðunar, og þætti þá bezt viðeigandi, að hæstv. ríkisstj. léti þjóðhátíðarnefndarmenn líta á þetta, ef till. væri vísað til hennar. Mér þætti það eðlileg málsmeðferð, einkum þar sem till. um sjálfa þjóðhátíðina var vísað til ríkisstj., að þá væri jafnsmávægilegri till. og hér er um að ræða einnig vísað til hennar.