10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (4455)

68. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það getur sagt hversem vill, að hér sé um hégómamál að ræða. Saga Íslands verður ekki skrifuð upp eða breytt af mér eða hv. 6. þm. Reykv. Þó að ekki sé búið að binda það með alþingissamþykkt, að stofnun lýðveldisins verði kennd við Jón Sigurðsson, verður samþykkt Alþ. alltaf tengd við nafn hans, hvað sem þessi hv. þm. segir. Í þessari till. er ekki annað fólgið en það, að það sé sæmilegt að gera eitthvað fyrir einhvern sögustað á landinu í sambandi við lýðveldisstofnunina, og þá auðvitað lagt til, að það sé fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar.

Till. er af ásettu ráði óákveðin, því að allar frekari ákvarðanir eru geymdar þeirri nefnd, sem um þetta mál á að fjalla, og ef þjóðhátíðarnefndin á að hafa þetta mál með höndum, getur þingið eins framkvæmt það sjálft eins og að fara einhverjar krókaleiðir, og slíka till. vil ég kalla yfirskin, og það fyrir fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.