20.06.1944
Sameinað þing: 35. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (4506)

80. mál, þjóðminjasafn

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Í till. þeirri, sem hér er til umr., er farið fram á, að nú þegar skuli lagðar fyrir og veittar þrjár millj. kr. til að reisa hús fyrir þjóðminjasafn og hafizt handa um undirbúning. Þessi till. er flutt af formönnum allra þingflokka og nýtur vafalaust stuðnings flestra þm. Við flm. teljum því nægilegt að fylgja henni úr hlaði með örfáum orðum, enda þótt málið í rauninni sé svo stórt og merkilegt, að vel hefði mátt við eiga að flytja um það ýtarlegt mál.

Vísir að þjóðminjasafni mun hafa verið stofnaður hér á landi 1863 og þá fyrir atbeina séra Helga Sigurðssonar og Sigurðar Guðmundssonar málara. Af lítilli fjárhagsgetu var til þessa stofnað, en því meiri áhuga og glöggum skilningi á málinu. Ýmsir munu þá þegar hafa orðið til þess að gefa safninu muni, en það var látið nægja að geyma þá á dómkirkjuloftinu, þar sem landsbókasafnið hafðist við. Jón Árnason var landsbókavörður, og hann fékk sér til aðstoðar Sigurð Guðmundsson, eftir því sem mér er tjáð. Árið 1874 andaðist Sigurður Guðmundsson, og hafði hann þá sjálfur kvatt fyrir eftirmann sinn Sigurð Vigfússon. Þetta merka safn hefur yfirleitt hvergi átt viðeigandi samastað. Þegar Landsbankinn var byggður, var það flutt þangað og geymt þar uppi á lofti, undir timburþaki. Þó að þetta væri nú bót frá því, sem verið hafði, var slíkt húsnæði þá þegar algerlega ófullnægjandi, og var ætlunin, að það ástand þyrfti ekki að haldast nema örfá ár. Eftir að húsið fyrir landsbókasafnið var reist, var safnið flutt þangað, og enn var það geymt uppi á lofti við lélega aðstöðu. Og enn átti þetta að vera til bráðabirgða. En einmitt um þessar mundir fór safnið ört vaxandi, og bættust því við ýmis einkasöfn, eins og safn Þorvaldar Thoroddsens. Nú hefur nýlega verið stofnað sjóminjasafn og munir keyptir til þess, og einnig iðnminjasafn er nýstofnað. Þá má nefna listasafn ríkisins, sem mér er tjáð, að í séu um 600 listaverk, — og þá væntanlega ýmis af beztu listaverkum íslenzkra listamanna, málverk og höggmyndir. Öll þessi 60 listaverk eru ýmist geymd í kjallara eða dreifð um ýmsar byggingar í opinberri eigu, en þannig, að þjóðin hefur enga aðstöðu til að sjá þau í heild og fá þá viðkynningu af list landsmanna, sem hægt er einmitt með því einu móti að geta gengið herbergi úr herbergi og skoðað alla munina saman og í samanburði hvern við annan.

Hér á árunum var mikið rætt um að koma safninu fyrir í þjóðleikhúsinu, og átti það að fá til umráða bæði þriðju hæð og kjallarann. Nú verður þar enginn kjallari til umráða, og einnig er þetta ekki hentugt vegna safnsins.

Ég held ég megi fullyrða, að það er skoðun flm. og flestra landsmanna, sem kynnt hafa sér málið, að þetta ástand getur ekki haldizt; það er þjóðinni til vansa. Enda þótt við séum ekki rík þjóð, eins og öllum er kunnugt, þá má það ekki viðgangast, að við skulum ekki sjá okkur fært að veita þessum dýrmætu gripum okkar sæmilegt húsnæði. Þessi flækingur, sem verið hefur á þjóðminjasafni landsins, verður að hætta. Ég skal ekki hirða um að færa fyrir þessu mörg rök, en nefni aðeins tvennt. Það er náttúrlega til lítils að eiga safn dýrmætra og fagurra gripa, ef það að einhverju verulegu leyti er falið fyrir þjóðinni. Auk þess er það staðreynd, að því fer fjarri, að Íslendingar hafi á sæmilegan hátt reynt að bægja hættum frá dyrum þessara ómetanlegu verðmæta, og mér liggur við að segja, að það er mikið lán, að ekki hefur verr tekizt en raun ber vitni, og er það ekki sízt að þakka því, að safnið hefur notið langrar og góðrar forystu og alveg frábærs dugnaðar og áhuga hins ágæta og merka þjóðminjavarðar, Matthíasar Þórðarsonar, enda er slíkt á allra vitorði.

Að undanförnu hefur verið meir talað erlendis um Ísland og íslenzk málefni en nokkru sinni fyrr, ekki sízt í hinum enskumælandi heimi. Með velvilja og hrifningu er lýst, að 120 þús. manns, sem byggja 100 þús. ferkm. land úti á hjara veraldar, séu búnir að stofna lýðveldi og ætli að búa sem frjáls og öllum óháð menningarþjóð. Þetta þykir mikið í fang færzt, en þó almennt talið eðlilegt, vegna þess hve sterk er frelsisást þjóðarinnar. Og okkur er talið þetta fært líka vegna þess, að þjóðin á sér sögu, sérstaka tungu og bókmenntir og sérstakt þjóðerni. Vér Íslendingar skiljum ekki síður en aðrir, að það er einmitt þekking vor á allri sögu þjóðarinnar og sambandið milli fortíðar og nútíðar frá fyrstu byggð þessa lands og fram til þessa dags, varðveizla tungunnar og bóka, sem vér eigum það að þakka, að ekki aðeins vér álítum, heldur aðrar þjóðir einnig telja oss eiga rétt til frjálsræðis og fullveldis. Við flm. höfum þess vegna talið vel viðeigandi, að það sé fyrsta spor hins nýstofnaða lýðveldis að sýna einnig skilning sinn á þessari staðreynd og veita nokkurt fé úr ríkissjóði til byggingar þjóðminjasafns, til þess að leitast við að verja hina mörgu dýrmætu gripi skemmdum og skapa jafnframt þjóðinni aðstöðu til þeirra lifandi kynna af slíku dýrmætu og þjóðlegu safni, sem hún getur notið með því að eiga fullan og frjálsan aðgang að þessum verðmætum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð, en leyfi mér að láta í ljós þá von, að málið megi fá fljóta og góða afgreiðslu þegar á þessum degi.