22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (4519)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra, forseti. — Ég hef skrifað undir nál. fjhn. með fyrirvara. Það hef ég ekki gert vegna þess, að ég sé ósammála niðurstöðum n., heldur öllu fremum vegna þess, að ég veit, að mitt sjónarmið í þessu máli er allt annað en annarra hv. nefndarmanna, þótt svo hafi viljað til, að niðurstaðan að þessu sinni varð sú sama.

Ég vildi hafa óbundnar hendur um rökstuðning fyrir því, af hverju ég skrifaði undir nál., og vikið af þeim ástæðum einnig ekki taka að mér framsögu.

Viðvíkjandi brtt. er það að segja, að hún kom ekki til athugunar í n., en ég held, að nauðsynlegt væri að athuga hana, en þar sem nú líður óðum að þinglokum, sé ég ekki ástæðu til að fresta þessari umr. þess vegna. (Fjmrh.: Ég skal taka till. aftur til 3. umr.)

Það mætti margt um þetta mál segja, aðdraganda þess og meðferð, og ekki væri ófróðlegt að vita m.a., hvað veldur því, að þrátt fyrir það að stjórnarflokkarnir sömdu um það, þegar stj. var mynduð í nóvember, að afgr. þetta mál, þá hafa verið gerðar ráðstafanir til að afgr. það ekki fyrr en nú, en ég ætla algerlega að sleppa að leiða hér inn pólitískar umr. út af þessu máli. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna það aðeins á nafn, að ég hygg, að bændur landsins hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum í sambandi við þetta mál. Það er alveg víst, að ef búnaðarþing hefði ekki gert sitt tilboð, sem þetta frv. er byggt á, þá væri dýrtíðin í landinu nú orðin með öllu óviðráðanleg og hrein stöðvun orðin í atvinnuvegunum. Þetta býst ég við, að allir játi og ekki valdi nokkrum deilum. Ég hygg því, að þessi ákvörðun búnaðarþings hafi orðið til þess, að nú í dag er þó hægt að reka nokkra atvinnu enn í landinu og ekki verði fullyrt nema að svo kunni að verða. En það er jafnvíst, að þegar fulltrúar bænda gerðu þessa samþykkt, þá bjuggust þeir við, að samsvarandi ákvarðanir kæmu frá fleiri aðilum. Það er beint tekið fram í samþ. búnaðarþings í haust um þessi mál, að vonazt sé eftir, að sams konar aðgerðir verði gerðar að því er kaupgjald snertir í landinu, en það er svo langt frá því, að svo hafi orðið, heldur hefur þvert á móti kaupið verið hækkað síðan. Fordæmi bænda í þessu efni hefur því ekki verið fylgt, og þó að það muni ekki mjög miklu, þá er það þó frekar en hitt. að dýrtíð hafi hækkað í landinu, síðan búnaðarþing gerði sína samþykkt, sem ekki virðist þó, að hefði þurft að vera. Auk þess er það vitanlegt, sem ég ætla þó ekkert að fara út í, að bændur og fulltrúar þeirra munu í haust hafa búizt við því, að aðrir yrðu til að framkvæma bæði þessi l. og önnur heldur en raun hefur á orðið og fyrsta svar Alþingis til þeirra yrði ekki það, að sett yrði á stofn ríkisstj. í landinu, sem a.m.k. að miklum meiri hl. til hefði ekki fylgi eins einasta bónda í landinu. En þó að ég verði að segja þetta, að hér muni hafa verið tekið öðruvísi á málunum heldur en bændur vonuðust eftir og höfðu fulla ástæðu til að búast við, þegar fulltrúar þeirra gerðu þann samning, sem er grundvöllur þessa frv., þá er þó að játa það, að auðvitað settu þeir engin skilyrði í þessu efni önnur en þau, sem í frv. eru, að færi svo, að kaupgjald hækkaði og dýrtíðin jafnframt, þá hækkaði vöruverð hlutfallslega við það. Þó að ég þess vegna hafi ekki kosið að skrifa fyrirvaralaust undir nál. um þetta mál, sem hv. meðnm. mínir hafa skrifað undir jafnframt, þá mun ég samþ. þetta frv.