22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (4520)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins út af því, sem hv. meðnm. minn, hv. 1. þm. Eyf., sagði um afgreiðslu þessa máls, að það hefði dregizt óhæfilega eða jafnvel verið dregið af ásettu ráði, segja það, að eins og honum er bezt kunnugt um, eins og öðrum nm., hefur fjhn. þessarar d. verið óvenjulega störfum hlaðin, og þess vegna hafa beðið þangað til síðustu daga mál, sem ekki orkaði tvímælis um afgreiðslu á, og verð ég þó að segja, að ég hef ekki tekið eftir því, að brtt. lægju fyrir frá hæstv. landbrh., og hélt því, að málið gæti fengið afgr. hér óbreytt, því að það er sjálfsagt, fyrst þessi till. liggur fyrir, að óska eftir því við hæstv. forseta, að hann taki þetta mál sem fljótast á dagskrá aftur, t.d. á morgun, svo að þessi till., sem nú hefur verið tekin aftur til 3. umr., geti fengið afgr. og að nægilegur tími geti orðið til að afgr. það, ef þingi lýkur næstu daga, sem ég veit ekki, hvort er.

Hv. 1. þm. Eyf. bar að vísu engar sakir á stjórnarflokkana fyrir, að þeir hefðu ekki fullkomlega haldið orð sín við bændur, þegar þeir féllu frá þeirri hækkun fyrir afurðir sínar, sem þeir áttu rétt til, en ég vil þó skýrt taka fram, að það er fjarri því, að nokkur brigðmæli hafi verið höfð við þá. Þeir taka fram, að það sé fyrirsjáanlegt, að ekki sé hægt að fá samkomulag um þessa gagnkvæmu niðurfærslu, en segja svo, að þeir samt sem áður vilji falla frá, sinni hækkun, og geta þess um leið, að þeir geri það í því trausti, að hlutfallsleg kauphækkun fari fram á kaupgjaldi, og segja svo, að ef það verði ekki, þá óski þeir eftir, að sett séu ákvæði í frv. til að mæta því, að þetta hafi verið gert, þannig að þótt margir geti skrifað undir, að heppilegt hefði verið, að hægt hefði verið að finna grundvöll fyrir að færa allt niður, sem hefur áhrif á verðlagið, og lækka þannig dýrtíðina, þá hefur orðið að fara hina leiðina, og þar hefur allt verið haldið við bændur, sem lofað var, þegar þetta samkomulag var gert.