22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (4522)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég vil aðeins mótmæla þessum endurteknu vitleysum, sem koma frá þeim hv. þm., sem ekki hafa hugmynd um, hvað þetta mál er. Þeir eru sífellt að endurtaka, að það séu fyrst og fremst stórbændurnir, sem fá þetta fé. Það vita alir, sem eitthvað þekkja til, að nú er ekki hægt að reka stórbúskap með mörgu kaupafólki. Það er því þannig, að búskapur með því kaupi, sem nú er greitt, ber sig ekki. Nú er það næstum því eina ráðið að minnka búin við sig. Það eru einstaka undantekningar, þar sem fjárbúskapur er á jörðum, þar sem lítið þarf að gefa. Þeir, sem sífellt eru að stagast á þessu, þurfa ekki annað en að líta í kringum sig og aðgæta, hvernig er ástatt um rekstur þeirra búa, sem eru rekin af ríkinu eða bæjum. Þeir ættu að kynna sér, hvað mjólkumlítrinn kostar í Vestmannaeyjum, þeir ættu að at,huga, hvað hann kostar á Siglufirði, á Ísafirði, á Vífilsstöðum, á Kleppi. Þetta eru allt stórbú, sem eru rekin með fullkomnustu tækjum, sem hægt er að fá. Menn verða að gera sér ljóst, að með því kaupgjaldi og öðrum tilkostnaði, sem er á þessum stöðum, þá kostar varan raunverulega þetta, sem hún er seld fyrir. Ég vil því ákveðið mótmæla þessu, sem hefur komið hér fram hvað eftir annað, að hér sé einhver stórbúskapur, því að með því kaupi, sem nú er í landinu, er mjög erfitt að reka stórbúskap. Það er því rétt, að menn geri sér ljóst, að vörurnar kostuðu þetta og koma til með í haust að kosta þetta að viðbættri þeirri hækkun, sem síðan hefur orðið á tilkostnaði, og þegar verið er að tala um stefnubreytingu í þessu máli, þá er gott, að menn hafi þetta í huga.