22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (4523)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Það voru tvenn ummæli hér, sem ég vil gera aths. við. Annað er frá hv. 7. landsk., sem hv. þm. Str. hefur nú svarað, en ég vil samt sem áður ítreka það og mótmæla allri þeirri skoðun, sem þar kom fram. Mig furðar á, að ummæli slík sem þessi skuli koma fram frá manni, sem hefur tekið að sér að styðja þessa ríkisstj., sem hefur tekið að sér að framkvæma þessi l. Þessi hv. þm. óskar eftir, að svo mikið öngþveiti skapist í dýrtíðarmálunum, að það væri alls ekki hægt að ráða við það. Það, sem hann óskar eftir, er, að vísitalan hækki svo mikið og verðlag þar með og laun hans og annarra. (BSt: Er hann á föstum launum hjá ríkinu? — BBen: Hann er bara spekúlant.) Því fleiri krónur fær hann þá fyrir sína spekúlation. Þetta er ófært af manni, sem styður stj., sem ætlar að ráða fram úr þessum málum, því að hann veit, að það, sem gert er til að greiða landbúnaðarvörurnar niður, er liður í því að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Ég vil óska, að hann léti ekki fram úr sér önnur eins ummæli eins og hann hefur gert hér og oft áður.

Hin ummælin, sem ég vildi gera aths. við, voru frá hv. 1. þm. Eyf. Mér kom undarlega fyrir, að hann skyldi lýsa yfir, að þetta samkomulag, sem hefði verið gert á búnaðarþingi, hefði verið byggt á því, að aðrir flokkar færu með stjórn í landinu en nú em. Það eru nýjar upplýsingar, að stofnun eins og búnaðarþing setji þau skilyrði, að einhver sérstök pólitísk stjórn þurfi að vera í landinu, til að það geri einhverjar vissar ákvarðanir. Ég vil ekki trúa því, sem hv. 1. þm. Eyf. upplýsir hér, að Búnaðarfélagið sé svo mikið handbendi Framsfl., að hann geti fyrirskipað því, að öllu skuli hagað eftir því, hvort þeir eru í stjórn landsins, en nú hefur því þó verið lýst yfir hér á þingi í dag, þegar hann sagði, að þetta hefði verið samþ. á þeim grundvelli, að allt önnur. stj. hefði framkvæmt þessi l. en sú, sem nú fer með völd. Þetta verður ekki skilið öðruvísi. Ég veit ekki, hvaða óhugur ætti að vera í bændum til hæstv. landbrh. og framkvæmdar hans á l. (BSt: Eru ekki fleiri í stj. en hann?), og ef hann er borinn saman við fyrrv. landbrh., þá sé ég ekki, að þar hafi verið breytt til hins lakara. Ég mótmæli því, að þetta séu nokkur rök, að búnaðarþing hafi samþ. eftirgjöfina með þessu skilyrði og það hafi verið eitt skilyrðið af hendi Framsfl., að hann fengi að ráða í þessu landi og styðja þá leppstjórn, sem hefur verið hér síðan 1942. En ef þetta er fullyrt af hv. 1. þm. Eyf., þá er vissulega ástæða að taka til athugunar, hvort ekki þurfi að skipta um í Búnaðarfélaginu bæði stjórn og starfsaðferðir, svo að hún sé frjáls aðili, en ekki handbendi Framsóknarflokksins.

Ég hygg, að þessi yfirlýsing búnaðarþings, og ég veit það með vissu, hefur verið gerð af tvenns konar ástæðum. Önnur er sú, að bændur hafa sýnt raunverulegan þegnskap í þessu máli, að verða fyrstir til að taka skref niður dýrtíðarstigann. Hin er sú, að þeir vildu bryggja sér sjálfum greinilega uppbætur fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir, sem þeir áttu ekki heimtingu á í l. Það er síður en svo, að það sé ástæðan, að Framsfl. ætti að fara með völd. Það hefur aldrei, svo að ég viti, komið til mála, að það hafi verið sett sem neitt skilyrði við þessa till. Ég vil því mælast til, að hv. þm. taki aftur þessi ummæli sín og viðurkenni, að hann hafi farið með rangt mál.