22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (4530)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil bara út af ummælum hv. fyrri þm. Eyf. benda honum á, að ég hélt, að hann myndi þessi mál betur, og að Framsfl. eða fulltrúi frá honum var í n. til þess að mynda 4 flokka stjórn frá því í júlí í sumar og þangað til að þeir fyrstir og einir slitu samvinnunni í október. Og þeir lýstu því yfir, að þeir vildu ekki vera í 4 flokka stjórn. Ég skil ekki, hvers vegna hann er að halda því fram, að þeim hafi aldrei verið boðið að vera með í stjórnarmyndun, þegar búið er að ræða þetta frá því í júlí og þangað til í október, að þeir slitu samvinnunni. Það þarf meira en almenn Framsóknarrök til þess að halda þessu fram, það þarf að ganga langt út fyrir það.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á það, að það er rangt með farið, að Framsfl. hafi boðizt til þess að mynda stjórn með Sjálfstfl. einum. Framsfl. bauðst til þess að mynda stjórn með Sjálfstfl., utan þings og utan flokka ráðh., eftir því, sem hann hefur upplýst sjálfur, að Björn Þórðarson, sem átti að vera oddamaður, væri flokksleysingi. Og þá, ætlaði Framsfl. ekki að mynda stjórn með Sjálfstfl. einum, heldur með honum og flokksleysingja. Að Framsfl. hefði 3 menn, en Sjálfstfl. 2 menn í ríkisstjórninni. Þessi ummæli hv. fyrri þm. Eyf. get ég ekki skilið á annan veg. Þeir vildu ekki aðeins hafa fleiri ráðh. heldur en þeir vildu gefa Sjálfstfl., heldur vildu þeir líka hafa forsrh. úr sínum flokki. Þetta hefur hv. fyrri þm. Eyf. staðfest hér. Nú hefur það verið upplýst og viðurkennt, að Björn Þórðarson sé framsóknarmaður og Framsfl. ætlaði að hafa hann sem forsrh. og þar með að ráða í stjórninni. Þessari stórpólitísku yfirlýsingu er lýst yfir í dag af hv. fyrri þm. Eyf.

Þá vil ég aðeins segja hv. þm. S.-Þ. það, að ef hann hefði gætt eins vel þingskyldu sinnar um það að sitja í sínu sæti við þessa umr. eins og ég hef gert í gær og í fyrradag, þá hefði hann heyrt þakklætið, sem ég flutti til búnaðarþings. Ég hef skilið, hvað búnaðarþing gerði, og ég hef getað viðurkennt það mál. Fyrir mér var það stórt mál, en fyrir Framsfl. ekki eða hv. þm. S.-Þ. Fyrir mér var það stórt mál, að hægt væri að endurheimta virðingu þingsins og láta ekki þann glundroða ríkja á Alþ., sem búinn er að ríkja þar fyrir verk framsóknarmanna eingöngu síðan 1942, sem vildu hafa utanþingsstj., en hún á mestan þátt í glundroðanum, sem skapazt hefur í fjármálum undanfarin ár. Þetta er ekki mælt vegna mannanna persónulega, heldur fyrir það öngþveiti, sem framsóknarmenn vildu og vilja halda áfram á Alþ. Til þess að útiloka þetta ástand þurfti að skapa aftur þingræðisástand í landinu, og það var hægt að fórna miklu til þess að það tækist, það var hægt að ganga svo langt að sætta sig við að taka framsóknarmenn í stjórn til þess að útiloka öngþveitið. En þar brugðust framsóknarmenn ekki aðeins sinni þingskyldu, heldur líka skyldunni við þá menn, sem höfðu sent þá á þing til að gæta hagsmuna þeirra, og það verður þeim aldrei fyrirgefið.