22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (4535)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég get farið fljótt yfir sögu að þessu sinni.

Þar sem hv. 6. þm. Reykv. talar um það, að fyrrverandi forsrh. hafi verið þægt verkfæri í hendi Framsfl., þá er það vitanlega fjarri öllum sanni. Má í því sambandi minna á skipun í embætti við Háskólann. Sama er að segja um ummæli hv. þm. viðvíkjandi bráðabirgðastjórn. Hitt er vitað mál, að milli flokkanna var ríkjandi tortryggni. Ég fer ekki út í, af hverju hún var, en það er fullvíst, að milli þeirra var tortryggni. Þess vegna var það eðlilegt, að maður reyndur að réttsýni, en óflokksbundinn, hefði forsæti, ef eyða mætti tortryggninni. Þetta var þannig rökstutt í bréfum og á fundum. Ég sé ekkert eðlilegra en að báðir flokkar féllust á þetta. Síðar mátti svo fá fleiri flokka til samstarfs.

Það var aldrei gert ráð fyrir bráðabirgðastjórn. Hitt hefði verið æskilegt, að skapa fullkomið samstarf og traust milli Sjálfstfl. og Framsfl. með samningi um nokkur mál, og ég veit, að hv. 6. þm. Reykv. veit það, hvort sem hann vill lýsa því yfir eða ekki, að það var ekki vilji til þess í Sjálfstfl. að mynda stjórn með Framsfl. með hlutlausan mann í forsæti.

Björn Þórðarson var einungis tilboð, og þegar rætt var um fleiri menn, neitaði Framsfl. ekki að taka það til greina. Um þetta atriði var ekki ágreiningur síðastliðið vor. En ég skal nú víkja að ágreiningnum síðastliðið haust.

Hv. 6. þm. Reykv. hlýtur að vita það, að þegar lagður er fram samningsgrundvöllur, þá er ekki tekið fram hvert einstakt atriði. Það er vitað mál, að Framsfl. vildi ekki síður en Sjálfstfl., að samkomulag tækist, en það hljóta líka allir að sjá, að um eitthvað var ágreiningur. Það er ekki hægt að bera það fram, að ekki hafi verið neinn ágreiningur og trúa því jafnframt, sem borið var á borð daglega í blöðum Sósfl. í haust, að við vildum lækka kaupið og kúga verkalýðinn. Það er alls kostar ómögulegt að trúa hvoru tveggja.

Sannleikurinn er sá, að við mæltum með því og töldum það rétt, að bændur gæfu eftir þá hækkun, sem þeim bar samkvæmt sex manna nefndar álitinu, til þess að byrja mætti á að lækka dýrtíðina. Þegar og það var sýnt, að ef ekkert yrði að gert, var allt fjármálakerfið stöðvað. Ég hygg því, að það sé ekki rétt að deila á okkur framsóknarmenn fyrir það, að við höfum ekki viljað mynda stjórn, því að ef svo hefði verið, hefðum við aldrei lagt til, að bændur gæfu þetta eftir.

Það getur nú vel verið, að hæstv. ríkisstj. hafi samið um það, að látið verði undan og kaupið lækkað, þegar allt fer í hnút. Með því móti einu er þessi pólitík afsakanleg, að samið hafi verið um það þannig, að óhætt sé að treysta því. Að öðrum kosti er verið að fara með íslenzkt þjóðfélag út í kviksyndi, og mun þá e.t.v. ógerningur að snúa við, þegar menn loks hafa áttað sig og gera tilraun til þess.