22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (4539)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki þrátta við hv. þm. Str. út af þessu atriði, sýslumanni Suður-Múlasýslu. En ég held þó, að hv. þm. Str. sé það kunnugt, að engin dæmi finnast fyrir slíkri ráðstöfun, fyrr né síðar. Látum það nú vera, þó að honum væri veitt embættið. En svo fær hann þriggja ára frí eftir örstuttan tíma til þess að búa sig undir annað starf. Það væri þá nær að fá honum embætti, þegar hann hefur lokið framhaldsnámi.

Hitt er annað mál, hvort ríkið eigi að veita mönnum opinberan styrk til slíks framhaldsnáms. Og ég tel víst, að ef beiðni hefði komið fram um það í þinginu, þá hefði ég greitt atkv. með því. En það breytir ekki því, að hér er um óvenjulega ráðstöfun að ræða, og skora ég á hv. þm. Str. að mótmæla því, ef hann getur, og nefna eitt dæmi, þar sem svipað hefur verið farið að.

Hv. þm. Str. sagði varðandi kauphækkanirnar, að þær hafi ekki verið birtar með jafnstóru yfirletri og áður. A.m.k. ætti þó Tíminn að verða til þess að birta þær með stórum yfirsögnum, ef þær hafa átt sér stað.